Ársuppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2022

Fata 2106, dóttir Sjarma 12090 og Þrumu 742, Gunnbjarnarholti, nythæsta kýr nýliðins árs, 2022. Mynd…
Fata 2106, dóttir Sjarma 12090 og Þrumu 742, Gunnbjarnarholti, nythæsta kýr nýliðins árs, 2022. Mynd: Hróðný Jónsdóttir.

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautgriparæktinni 2022 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu og byrjum við yfirferðina í mjólkurframleiðslunni.

Mjólkurframleiðslan á nýliðnu ári
Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 507 en á árinu 2021 voru þeir 517. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 25.031,9 árskýr skiluðu 6.313 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaminnkun um 23 kg/árskú frá árinu 2021 en þá skiluðu 25.382,8 árskýr meðalnyt upp á 6.336 kg. Þetta eru þó einar mestu meðalafurðir frá upphafi vega og sjöunda árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.527 kg/árskú eða 17 kg minni en árið áður.

Meðalbústærð reiknaðist 51,2 árskýr á árinu 2022 en sambærileg tala var 50,0 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 67,2 kýr en 2021 reiknuðust þær 66,8. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.051 talsins samanborið við 34.553 árið áður.

Mestar meðalafurðir á Norðurlandi eystra
Svæðaskipting fylgir að segja má kjördæmum. Á árinu voru mestar meðalafurðir á Norðurlandi eystra, 6.387 kg, og síðan kemur Suðurland með 6.361 kg.

Stærst eru búin að meðaltali á Austurlandi, 53,3 árskýr, en næststærst eru þau á Suðurlandi, 52,9 árskýr.

Meðalbúið stækkar aðeins
Meðalbúið stækkaði milli ára þrátt fyrir samdrátt í innleggi mjólkur en í takti við fækkun innleggsbúa. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 298.655 lítrum samanborið við 288.088 lítra á árinu 2021. Á sama tíma fækkaði innleggsbúum mjólkur um sextán og voru kúabú í framleiðslu 496 talsins nú í árslok 2022. Í ársbyrjun fækkaði þeim enn en fjögur bú hættu framleiðslu um áramót og í upphafi árs lögðu því 492 bú á brattann. Sú þróun að búunum fækki og þau stækki er því enn í fullum gangi og ekki séð fyrir endann á henni. Viðbúið er því að mjólkurframleiðendum fækki enn á komandi vikum og mánuðum.

Mikil vanhöld á kálfum
Vanhöld kálfa eru enn með þeim hætti að illa verður við unað. Einkum er þar um að ræða gríðarmikinn fjölda dauðfæddra kálfa við fyrsta burð en fjórði hver kálfur undan 1. kálfs kvígum fæðist dauður eða 24,9%. Þó þetta hlutfall hafi lækkað aðeins milli ára er þetta ástand allt annað en eðlilegt. Þrátt fyrir rannsóknir og athuganir á orsökum þessa hefur engin ein ástæða fundist. Fyrir dyrum stendur rannsókn í samstarfi Landbúnaðarháskóla Íslands og RML þar sem reynt verður að greina hvort um erfðaþátt geti verið að ræða. Tekin verða sýni úr dauðfæddum kálfum til arfgreininga og mun þá koma til samstarfs við bændur. Það kæmi undirrituðum mjög í opna skjöldu ef bændur yrðu ekki fúsir til samstarfs um þennan þátt en reynslan hefur sýnt að bændur bregðast ætíð vel við þegar leitað er eftir samstarfi um hina ýmsu þætti.

Aldur kvígna við fyrsta burð mjakast hægt og bítandi niður á við, er nú 27,2 mánuðir. Þetta er of hár aldur og enn og aftur bendum við á að allar rannsóknir og athuganir sýna að hagkvæmast er að kvígurnar eignist sinn fyrsta kálf í kringum 23-24 mánaða aldur. Eftir allan þann tíma sem við höfum haldið þessu á lofti er kominn tími til aðgerða. Látið kvígurnar bera 24 mánaða!

Sparinautin, þau naut sem standa í stíum bænda um allt land, á að nota sem slík. Af fæddum kálfum á árinu 2022 voru 31% undan sparinautum. Það sama á við um þetta og burðaraldurinn, við höfum margsagt að spara eigi þessi naut og sæða sem allra flestar kýr og kvígur. Ástæðuna vita allir. Nú, þegar erfðamengisúrval er orðið að veruleika, er mikilvægara en nokkru sinni að notfæra sér sæðingar og þær miklu erfðaframfarir sem þær bjóða upp á. Úrval toppnauta í kútum frjótækna hefur aldrei verið meira eða betra en nú.

Mestar meðalafurðir á Stakkhamri á Snæfellsnesi
Á árinu 2022 reyndust kýr Laufeyjar Bjarnadóttur og Þrastar Aðalbjarnarsonar á Stakkhamri á Snæfellsnesi með mesta meðalnyt eftir árskú eða 8.910 kg. Hér er höggvið nærri Íslandsmeti Brúsastaða í Vatnsdal frá árinu 2016 sem er 8.990 kg/árskú. Á Stakkhamri er legubásafjós með mjaltaþjóni sem tekinn var í notkun veturinn 2021-22. Ekki er annað að sjá en kýrnar kunni þeirri breytingu vel en afurðir á búinu jukust um 845 kg/árskú milli ára. Þetta er í annað sinn sem Stakkhamar skipar efsta sæti lista yfir afurðahæstu bú á einu almanaksári en árið 2006 varð raunin einnig sú. Þá skiluðu kýrnar þar 7.896 kg mjólkur/árskú sem á þeim tíma var Íslandsmet.

Annað í röð afurðahæstu búa landsins er bú sem skipaði fjórða sæti þessa lista á árinu 2021. Þetta er Dalbær í Hrunamannahreppi en rekstraraðili þar er Dalbær 1 ehf.  Kýrnar skiluðu 8.672 kg/árskú sem er 300 kg meira en árið áður. Í Dalbæ hefur verið legubásafjós með mjaltaþjóni um árabil og er búið vel þekkt í íslenskri nautgriparækt en þaðan eru t.d. hin kunnu kynbótanaut Laski 00010, Glæðir 02001 og Gyllir 03007.

Þriðja afurðahæsta bú ársins 2022 er búið á Göngustöðum í Svarfaðardal en þar reyndust kýrnar skila 8.596 kg mjólkur/árskú. Rekstraraðili búsins er Göngustaðir ehf. Á Göngustöðum er nokkurra ára legubásafjós með mjaltaþjóni og síðan það kom til nota hafa afurðir tekið stórstígum breytingum. Milli ára jukust afurðir á búinu sem nemur 561 kg/árskú.

Í fjórða sæti varð bú þeirra Jónínu Einarsdóttur og Gísla Haukssonar á Stóru-Reykjum í Flóa. Kýrnar á Stóru-Reykjum skiluðu 8.507 kg/árskú á nýliðnu ári eða 186 kg/árskú meira en árið á undan. Á þessu fyrirmyndarbúi ársins 2022 er að finna nýlegt legubásafjós með mjaltaþjóni. Fimmta búið í röð afurðahæstu búa ársins 2022 er gamalkunnugt á þessum lista. Bú þeirra bú Guðlaugar Sigurðardóttur og Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar á Hraunhálsi í Helgafellssveit hefur oftsinnis áður komið fyrir meðal afurðahæstu búa landsins og árið 2022 er engin undantekning þar á. Kýrnar þar mjólkuðu 8.477 kg/árskú. Hraunháls sker sig úr að því leyti að þar er að finna básafjós með rörmjaltakerfi. Sjötta afurðahæsta bú ársins 2022 var svo bú Guðrúnar Marinósdóttur og Gunnars Þórs Þórissonar á Búrfelli í Svarfaðardal en það skipaði efsta sæti þessa lista árin 2020 og 2021. Á nýliðnu ári skiluðu kýrnar á Búrfelli 8.374 kg/árskú en á búinu er nýlegt legubásafjós með mjaltaþjóni.

Þessum búum til viðbótar náðu tíu bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Það er einu búi færra með yfir 8 þús. kg meðalafurðir en á árinu 2021.

Fata 2106 hjá Gunnbirni ehf. mjólkaði allra kúa mest
Nythæsta kýr landsins árið 2022 reyndist vera Fata 2106 á búi Gunnbjörns ehf. í Gunnbjarnarholti í Eystrihreppi, undan Sjarma 12090 og móðurfaðir hennar er Þrymur 02042. Fata mjólkaði 14.739 kg með 3,40% fitu og 3,29% próteini. Burðartími hennar féll nokkuð að almanaksárinu en hún bar sínum fimmta kálfi 29. janúar 2022. Hæsta dagsnyt Fötu á nýliðnu ári var 55,6 kg og hún var enn í yfir 45 kg að áliðnu sumri eða um mánaðamót ágúst og september. Nú um áramótin var dagsnytin komin í 28 kg sem verður að teljast harla gott, 11 mánuðum eftir burð. Fata er fædd í júní 2015 og bar fyrsta kálfi 7. október 2017. Skráðar æviafurðir hennar voru 56.924 kg um síðustu áramót og á yfirstandandi mjólkurskeiði eru afurðir hinar sömu og ársafurðirnar eða 14.739 kg mjólkur.

Önnur í röðinni á nýliðnu ári var Stella 797 á Tannstaðabakka við Hrútafjörð, undan Bessa 494 og því sonardóttir Myrkva 14007. Stella mjólkaði 13.651 kg á árinu með 4,04% fitu og 3,19% próteini. Hún bar sínum öðrum kálfi 22. desember 2021. Hæsta skráða dagsnyt Stellu var 45,3 kg og um nýliðin áramót var hún enn í kringum 20 kg. nyt. Stella fæddist 14. október 2018 og átti sinn fyrsta kálf 26. nóvember 2020. Skráðar æviafurðir við lok síðasta árs voru 20.575 kg mjólkur.

Þriðja í röðinni árið 2022 var kýr númer 1112 í Hrepphólum í Hrunamannahreppi, undan Roða 11051 og móðurfaðir er Slagur 14082. Þessi kýr mjólkaði 13.578 kg á árinu með 3,49% fitu og 3,30% próteini en sínum öðrum kálfi bar hún 20. febrúar 2022. Hæsta dagsnyt hennar var 51,3 kg og hún var enn í 37,4 kg dagsnyt um síðustu áramót. Þetta er ung kýr, fædd á nýársdag 2019 og fyrri kálf sinn fram að þessu átti hún 14. febrúar 2021. Skráðar æviafurðir hennar um síðustu áramót voru 22.660 kg.

Fjórða nythæsta kýrin var Snotra 273 í Villingadal í Saurbæjarhreppi hinum forna í Eyjafirði. Snotra telst orðið til heldri kúa, fædd í nóvember 2010 og er því á sínum 13. vetri. Hún bar fyrsta kálfi 22. janúar 2013 og sinn 9. kálf eignaðist hún 22. janúar á nýliðnu ári. Nyt hennar á árinu var 13.569 kg með 4,49% fitu og 3,23% próteini. Snotra er dóttir Sigurfara 08041 og móðurfaðir er Ljúfur 05040. Hún fór hæst í 54,0 kg dagsnyt á árinu 2022 og skráðar æviafurðir hennar um áramótin voru 76.661 kg.

Fimmta afurðahæsta kýrin að þessu sinni var Ófeig 882 á Stóra-Ármóti í Flóa, dóttir Skalla 11023 en móðurfaðir hennar var Bolti 09021. Ófeig er fædd 17. október 2018 og átti sinn annan kálf þann 16. nóvember 2021. Fyrsta kálfi bar hún 5. október 2020. Ófeig mjólkaði 13.485 kg á síðasta ári og hæsta skráða dagsnyt hennar var 47 kg. Um nýliðin áramót var hún enn í 25,6 kg dagsnyt. Nú um áramótin hafði Ófeig skilað samtals 24.038 kg mjólkur.

Alls skiluðu 158 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 45 yfir 12.000 kg. Árið 2021 náðu 143 kýr nyt yfir 11.000 kg.

Tvær kýr í hóp 100 tonna kúa
Á árinu 2022 náðu tvær kýr þeim sjaldséða árangri hérlendis að mjólka 100 þús. kg mjólkur á æviskeiðinu. Sú fyrri er Gullbrá 357 á búi Þorleifs Kristins Karlssonar á Hóli á Upsaströnd. Gullbrá er fædd á Hrafnsstöðum í Svarfaðardal í apríl 2004 en var seld að Hóli sem smákálfur. Þessi kýr er dóttir Hvítings 96032 og móðurfaðir er Klinton 1513611-0921 Búandasonur 95027. Gullbrá bar fyrst í október 2006 og ellefta sinni í júní á nýliðnu ári. Um áramótin síðustu stóðu æviafurðir Gullbrár í 102.557 kg. Hún er ákaflega sterkbyggð og endingargóð kýr, hlaut á sínum tíma 85 stig í útlitsdómi.

Undir lok ársins eða á u.þ.b. þriðja í jólum mjólkaði Bleik 995 á búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd sínu 100 þúsundasta kg mjólkur og hafði um áramótin náð æviafurðum upp á 100.096 kg, Bleik er fædd 14. ágúst 2009 undan Grána 1528871-0890 Hersissyni 97033 og Stássu 873 Stássadóttur 04024. Bleik hefur borið tíu sinnum, síðast í janúar 2022 og hún á tal núna í apríl n.k.

Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 114.635 kg.

Ár breytinga
Árið 2022 hlýtur að teljast ár breytinga í íslenskri nautgriparækt. Tekið var í notkun svokallað erfðamengisúrval en með því er horfið frá afkvæmaprófunum á nautum og nautin koma til notkunar á grunni arfgerðargreininga. Þessi breyting þýðir að þau koma til fullra nota strax og þau fara að gefa sæði u.þ.b. 13-14 mánaða gömul. Ekki þarf að fjölyrða um hvílík bylting þetta er og hvað erfðaframfarir munu aukast stórkostlega, einkum með styttra ættliðabili. Áfram er og verður þó skýrsluhaldið kjölfestan sem allt ræktunarstarf byggir á. Með erfðamengisúrvali er reyndin sú að gott og vel fært skýrsluhald er mikilvægara en nokkru sinni áður en tenging arfgerðanna við raunveruleg gögn er það sem skapar matið eða spána um hið raunverulega kynbótagildi gripanna. Þarna liggja því tækifæri til þess að gera enn betur, bæta reksturinn og hagræða svo um munar. Gott skýrsluhald er grunnur að góðri bústjórn og einn mælikvarði á gæði skýrslnanna er t.d. mjólkurnýting. Með því er átt við það hlutfall af framleiddri mjólk samkvæmt skýrslum sem skilar sér sem innvegin mjólk. Því miður er í mörgum tilfellum of mikill munur þarna á og alveg ljóst að allmörg bú geta bætt sitt skýrsluhald og/eða rekstur með því að minnka þennan mun. Þetta á við um bæði þau bú sem skipa efstu sæti afurðalistanna og þau sem neðar eru. Munum að gott skýrsluhald er gulli betra!

Áður en við snúum okkur að uppgjöri kjötframleiðslunnar á síðasta ári er rétt að óska mjólkurframleiðendum öllum, og þá ekki síst ábúendum á Stakkhamri á Snæfellsnesi, í Gunnbjarnarholti í Eystrihreppi, á Hóli á Upsaströnd og Gautsstöðum á Svalbarðsströnd til hamingju með glæsilegan árangur og þakka gott samstarf á nýliðnu ári. 

Nautakjötsframleiðslan árið 2022
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2022 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.

Undir árslok 2018 var byrjað að birta uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna og nær það uppgjör til þeirra búa þar sem haldnar eru holdakýr. Enn er þetta yfirlit þó þeim annmörkum háð að niðurstöður ná ekki yfir þær holdakýr sem eru á búum þar sem um er að ræða mjólkurframleiðslu. Þetta hefur sína kosti og galla. Kosturinn er sá að uppgjörið tekur til sérhæfðra búa með holdakýr en gallinn er á hinn bóginn sá að ekki eru allar holdakýr með í uppgjörinu.

Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2022 nær til 126 búa og þar af er að finna holdakýr af erlendu kyni á 96. Búunum fjölgar um fjögur milli ára en búum þar sem er að finna holdakýr ef erlendu kyni fjölgar um fimm. Kýr á þessum búum voru við uppgjör ársins 3.352 talsins, sem er fjölgun um 191 kú frá árinu áður. Meðalfjöldi kúa á búi var 26,6 samanborið við 25,9 árið áður og reiknast þessar kýr yfir í 25,9 árskýr á bú en þær voru 23,7 árið 2021. Alls var um að ræða 2.910 burði á þessum búum á árinu 2022 sem jafngildir 0,87 burðum/kú. Þetta er fjölgun um 341 burð og samdráttur um 0,06 burði á kú milli ára.

Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2022
Heildarframleiðsla ársins á þessum 126 búum nam um 885 tonnum sem er aukning um 201 tonn milli ára. Þetta þýðir að þessi bú framleiða nálægt 18% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 7.023 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 3.557. Sambærilegar tölur frá fyrra ári eru 5.607 kg og 2.639 gripir. Meðalfallþungi kúa frá þessum búum var 214,0 kg, en hann reyndist 216,5 kg árið áður og meðalþungi ungneyta var 257,8 kg en þau vógu til jafnaðar 267,6 kg 2021. Til jafnaðar var ungneytunum fargað 727,8 daga gömlum eða 11,3 dögum yngri að meðaltali en á árinu 2021. Þetta jafngildir vexti upp á 335,6 g/dag, sé reiknað út frá fallþunga, en sambærileg tala frá fyrra ári var 347,6 g/dag. Til samanburðar var slátrað 10.166 (9.556) ungneytum á landinu öllu sem vógu 251,5 (255,6) kg að meðaltali við 747,7 (750,6) daga aldur. Tölur innan sviga eru frá 2021. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum heldur þyngri við lægri aldur að jafnaði eins og verið hefur undanfarin ár. Heilt yfir eru ungneyti léttari en árið áður enda alin heldur færri daga.

Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 5,5 (5,6) á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er 4,7 (4,6). Flokkun er því mun betri til jafnaðar á sérhæfðu búunum, rétt eins og árið áður. Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14. Meðalgripurinn á búunum í yfirlitinu er því nálægt því að flokkast í O.

Frjósemi
Á árinu 2022 fæddust 2.910 kálfar á sérhæfðu kjötframleiðslubúunum og reiknast meðalbil milli burða 465 (452) dagar. Bil milli burða er því nálægt 15,5 mánuðum sem er töluvert lengra en svo að meðalkýrin nái einum burði á ári. Framleiðsla nautakjöts með holdakúm verður tæpast arðbær hérlendis nema að þessi þáttur taki breytingum til batnaðar. Við þetta bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 16,7% (16,2%), 5,5% (5,0%) við aðra burði og vanhöld frá 0-6 mánaða 3,4% (3,0%) þannig að fjöldi kálfa til nytja verður töluvert langt innan við kálf á kú á ári. Tölur í svigum hér eru frá fyrra ári.

Sæðingum á þessum búum fækkar aðeins frá fyrra ári og eru þær undantekning en ekki regla. Þannig voru sæddar 512 kýr á árinu 2022 samanborið við 551 kú árið áður. Hlutfall sæddra kúa lækkar því í 15,3% úr 17,4%. Af þessum 512 sæddu kúm voru 292 af erlendu kyni. Til jafnaðar voru kýrnar sæddar 1,3 (1,4) sinnum og að meðaltali liðu 104,3 (121,0) dagar frá burði til 1. sæðingar. Þær kýr sem eru sæddar þetta löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili en þó hafa mál færst til betri vegar hvað þetta snertir. Tilkoma Angus-sæðis frá Nautgriparæktarmiðstöð Íslands jók notkun sæðinga milli 2020 og 2021 en nú virðist ákveðnum toppi náð. Spurningin er hvort notkun sona Angus-sæðinganautanna og þeirra sjálfra heima á búunum hefur ekki orðið umtalsverð áhrif. Hlutfall fæddra kálfa undan sæðinganautum nær ekki nema 18,7% en hefur þó hækkað umtalsvert milli ára en á árinu 2021 var hlutfall þeirra 15,3%. Það er þó ljóst að erfðaefnið úr Angus nær meiri dreifingu en þessar tölur segja til um enda hlýtur greinin að horfa til meiri vaxtarhraða, betri flokkunar auk betri móðureiginleika. Við val nauta fyrir fósturvísaflutningana frá Noregi hefur verið horft sérstaklega til þessara þátta enda hafa þeir hvað mest áhrif á afkomu greinarinnar.

Ef framleiðsla nautakjöts með holdakúm á að verða arðbær hérlendis verður að gera verulegt átak varðandi frjósemi og notkun sæðinga. Bil milli burða er alltof langt en grundvallarforsenda þess að þessi grein geti náð meiri arðsemi hlýtur að vera sú að hver kýr skili sem næst einum lifandi kálfi á hverju ári. Þá eru ónýttir möguleikar til þess að auka vaxtarhraða og kjötgæði með meiri og markvissari notkun sæðinga og tækifæri til að gera betur en nú er. Þá eiga menn að varast mjög að nota hvert og eitt naut í mjög langan tíma á hverju búi. Tvö til þrjú ár hlýtur að teljast hámarksnotkunartími hvers nauts á hverju og einu búi.

Mestur þungi og vöxtur
Þyngsta ungneytið sem slátrað var árinu var naut nr. 1204 í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Þessi gripur var holdablendingur, 63% Angus, 33% íslenskur og 4% Limousine, undan Vísi-ET 18400 og vóg 502,2 kg er honum var slátrað við 22 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN U+3-. Í töflu 2 má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 470 kg fallþunga á árinu 2022 en þau voru ellefu talsins og frá sjö búum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að ungneyti eru gripir sem fargað er við 12-30 mánaða aldur. Allir þessir gripir hafa náð sérlega miklum vexti og þar með þunga og athygli vekur að þarna skila bæði Vísir-ET 18400 og Draumur-ET 18402 ákaflega góðu.

Tafla 2. Þyngstu ungneyti á árinu 2022 (yfir 470 kg fall).

Gripur

Faðir

Stofn

Aldur, mán.

Þungi, kg

Flokkun

1204 (naut)

Nýibær

Vísir-ET 18400

AA x IS x Li

22,0

502,2

UN U+3-

1180 (naut)

Hofsstaðasel

Vísir-ET 18400

AA x IS x Li

27,5

501,1

UN U2+

1166 (naut)

Hofsstaðasel

Draumur-ET 18402

AA x IS x Li

25,2

497,4

UN U3-

0474 (naut)

Stóra-Fjarðarhorn

Lindi 95452

Li x AA x IS

24,2

492,7

UN U3

1338 (naut)

Breiðaból

Arður 95402

AA x IS

29,2

491,2

UN U3

1143 (naut)

Nýibær

Draumur-ET 18402

AA x IS x Li

23,6

482,9

UN U3+

1344 (naut)

Breiðaból

Arður 95402

AA x IS

28,4

481,5

UN U3-

0319 (naut)

Saurbær

Draumur-ET 18402

AA x IS

30,0

481,1

UN U2

0012 (naut)

Mýrar

Álfur 95401

AA x IS

30,0

479,9

UN U3-

0636 (naut)

Minni-Akrar

Rúgur 84666

Ga x AA x Li

27,2

477,4

UN U3

1200 (naut)

Hofsstaðasel

Draumur-ET 18402

AA x Ga x Li

27,2

470,1

UN U3-

 

Í töflu 3 má sjá þau ungneyti sem náðu mestum daglegum vexti reiknuðum út frá fallþunga. Miðað er við að gripirnir hafi náð a.m.k. 15 mánaða aldri við slátrun og reiknað er með 20 kg fallþunga við fæðingu. Mestum eða hröðustum vexti ársins náði naut númer 1204 í Nýjabæ undir Eyjafjöllum, sama nautið og náði mestum fallþunga ársins. Miðað við fyrrgreindar forsendur óx þessi gripur 729,5 g/dag sem er geysilega mikill vöxtur.

Tafla 3. Ungneyti með mestan daglegan vöxt á árinu 2022 (tíu efstu).

Gripur

Faðir

Stofn

Aldur, mán.

Þungi, kg

Flokkun

Vöxtur, g fall/dag

1204 (naut)

Nýibær

Vísir-ET 18400

AA x IS x Li

22,0

502,2

UN U+3-

729,5

0938 (naut)

Svertings-staðir 2

Draumur-ET 18402

AA x Li x IS

20,2

453,4

UN U3-

708,2

0065 (naut)

Reykir

Draumur-ET 18402

AA x IS

19,1

405,4

UN U2+

673,8

1143 (naut)

Nýibær

Draumur-ET 18402

AA x IS x Li

23,6

482,9

UN U3+

654,7

0474 (naut)

Stóra-Fjarðarhorn

Lindi 95452

Li x AA x IS

24,2

492,7

UN U3

652,0

1166 (naut)

Hofsstaða-sel

Draumur-ET 18402

AA x IS x Li

25,2

497,4

UN U3-

630,6

0689 (naut)

Lækjartún

1653062-0654 (IS x Li x Ga x AA)

Ga x Li x AA x IS

16,9

335,1

UN U2+

622,7

1350 (naut)

Hvammur

Draumur-ET 18402

AA x IS

20,4

399,8

UN U3+

620,6

1126 (naut)

Nýibær

Angi 95400

AA x IS

23,9

464,8

UN U3+

620,4

1321 (naut)

Hvammur

Draumur-ET 18402

AA x IS

21,5

418,1

UN U3+

618,2

 

Þessar tölur og listar yfir þá gripi sem eru þyngstir og vaxa mest sýna vel hve holdablendingarnir skara fram úr, einkum og sér í lagi synir yngri Angus-nautanna frá einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti. Það er mjög eðlilegt að gripir af kynjum sem hafa verið ræktuð m.t.t. vaxtar og kjötgæða, taki þeim gripum sem eingöngu eru ræktaðir til mjólkurframleiðslu fram. Þetta ætti hins vegar að vera þeim sem stunda framleiðslu nautakjöts mikil hvatning til þess að nýta það erfðaefni sem nú stendur til boða úr gripum fæddum á einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti. Þetta eru gripir sem hafa til að bera meiri vaxtargetu og kjötgæði en gömlu Angus- og Limousine-gripirnir auk þess sem þeir voru valdir m.t.t. mæðraeiginleika. Þeir sem halda holdakýr ættu því eindregið að notfæra sér sæðingar ef nokkur kostur er. Fyrir mjólkurframleiðendur er ástæða til að skoða hvort svigrúm er til þess að nota holdasæði í hluta kúnna og selja blendingana kjötframleiðendum nýfædda. Eins og við rituðum í fyrra bendir margt til þess að nú sé lag, nægur fjöldi kvígna til endurnýjunar fyrir hendi auk þess sem brýnt er að draga úr endurnýjunarhraðanum með arðsemi að leiðarljósi.

Tölur ársins 2022 sýna að eldi sláturgripa fer fram. Einkum og sér í lagi eru sífellt fleiri gripir sem sýna mjög góðan vöxt og flokkun bestu gripanna verður stöðugt betri. Það er þó hægt að gera enn betur og breytileikinn er of mikill. Á meðfylgjandi grafi má sjá fallþungadreifingu ungneyta eftir aldri á árinu 2022. Grafið sýnir okkur að alltof stór hluti ungneyta er undir ásættanlegum fallþunga og virðist aldur við förgun skipta litlu máli. Þarna er greinilega verk að vinna. Bæta þarf eldi og atlæti léttari gripanna þannig að þeir nái þeim fallþunga sem við getum sætt okkur við. Aðeins þannig náum við að framleiða gott nautakjöt á arðbæran hátt.

 

Að endingu er full ástæða til þess að óska þeim framleiðendum sem náð hafa góðum árangri við framleiðslu á nautakjöti til hamingju með þann árangur og ítreka þakkir og góðar óskir til allra nautgripabænda með þökk fyrir gott samstarf á nýliðnu ári. 

Sjá nánar:

https://www.rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2022