Breytingar á reyndum nautum í notkun

Tanni 15065. Mynd: NBÍ
Tanni 15065. Mynd: NBÍ

Að loknu ársuppgjöri nautgriparæktarinnar var keyrt nýtt kynbótamat og að þessu sinni var um nokkra tímamótakeyrslu að ræða. Í fyrsta skipti var allt mat keyrt í einu ferli í einu og sama forritinu sem að styttir keyrslutíma mikið og flýtir ferlinu. Um leið voru gerðar ákveðnar breytingar sem hafa tiltölulega lítil áhrif en einhver í einstaka tilvikum. Útlitseiginleikar byggja nú alfarið á línulegu mati þar sem tölur úr gamla dómskalanum, sem hætt var að nota í kúaskoðun 2014, koma ekki lengur nærri. Þá er mat fyrir endingu nú keyrt með nýju líkani og fá nú allir gripir endingarmat í stað þess að það var áður einungis keyrt fyrir nautin. Það er Þórdís Þórarinsdóttir sem hefur haft veg og vanda af þessari vinnu en hún vinnur nú að innleiðingu erfðamats. Þannig eru meiri og víðtækari breytingar í farvatninu.

Fagráð í nautgriparækt fundaði í dag um niðurstöður matsins sem gáfu ekki mikið svigrúm til breytinga. Ákveðið var að taka Dal 16025 og Núma 16038 úr dreifingu en þeir lækkuðu báðir niður í 104. Önnur reynd naut í notkun eru óbreytt. Ákveðið var að taka Knött 16006 og Skírni 16018 af lista yfir nautsfeður en Tanni 15065 kemur aftur inn sem nautsfaðir í kjölfar hækkunar en hann stendur nú i 115.