Fyrstu tölur úr tilraun með kyngreint sæði

Eins og kunnugt er var nautasæði kyngreint í fyrsta skipti á Íslandi í desember 2024. Þá var kyngreint sæði úr fimm nautum í tilraunaskyni þar sem hverri sæðistöku var skipt í annars vegar hefðbundið sæði og hins vegar kyngreint. Þetta sæði var notað um mest allt land án þess að frjótæknar eða bændur vissu um hvora tegundina var að ræða. Fyrsta sæðing fór fram 15. janúar s.l. og tilrauninni lauk þann 31. maí. Nú liggja fyrir allra fyrstu tölur um 56 daga ekki uppbeiðsli og eru þær birtar með fyrirvara þar sem uppgjöri er alls ekki lokið. Hins vegar styttist í að kyngreint sæði komi til notkunar og mikilvægt fyrir bændur að vita að hverju þeir ganga.

Bráðabirgðaniðurstöður sýna að 56 daga ekki uppbeiðsli í tilrauninni var 57,8% með hefðbundnu sæði og 52,0% með kyngreindu sæði. Í þessum tölum er búið að fjarlægja allar tvísæðingar en ekki tekið tillit til neinna annarra þátta, s.s. númeri sæðingar, aldurs kúnna o.s.frv. né heldur leiðrétt fyrir þáttum eins og búi eða frjótækni. Þarna kemur fram munur upp á nálægt sex prósentustig sem er vel innan ásættanlegra marka. Það er þó rétt að taka fram að töluverður munur reyndist vera milli nauta, eins og eðlilegt er. Þannig reyndist minnsti munur ekki uppbeiðslis milli hefðbundins og kyngreinds sæðis vera 1,9 prósentustig en mestur var hann 9,3%. Vísbendingar eru um að árangurinn sé betri hjá kvígum og yngri kúm en þeim sem eldri eru. Þannig reyndist 56 daga ekki uppbeiðsli hjá kvígum vera 64,9% með hefðbundnu sæði en 63,0% með kyngreindu sæði. Hjá tveimur af fimm nautum er árangur sæðinga kvígna betri með kyngreindu en hefðbundnu og á pari hjá einu nautanna.

Fyrstu ályktanir sem draga má af tilrauninni eru að íslenskt nautsæði þolir vel kyngreiningu og árangur er góður. Sá munur sem fram kemur stafar fyrst og fremst af mun milli nauta en ekki aðferða, þ.e. sum naut þola þynningu lakar en önnur. Árangur er betri hjá kvígum og yngri kúm og því er mælt með að nota kyngreint sæði frekar á þær en eldri kýr.

Uppgjöri er ekki lokið og mun taka einhvern tíma að ljúka því að fullu. Það er hins vegar mikilvægt að koma þessum vísbendingum á framfæri áður en dreifing á kyngreindu sæði hefst fyrir alvöru.