Kynbótamat fyrir lifun kálfa og gang burðar

Enn dregur til tíðinda í kynbótastarfinu í íslenskri nautgriparækt en kynbótamat fyrir „lifun kálfa“ og „gang burðar“ hefur nú verið birt í Huppu og á nautaskrá.is. Kynbótamatið er þróað af Agli Gautasyni, lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Um er að ræða mat fyrir þessa tvo fyrrnefnda eiginleika sem skiptist í nokkrar undireinkunnir en einnig birtast tvær samsettar einkunnir. Vonir standa til að kynbótamatið muni hjálpa okkur að berjast gegn allt of miklum kálfadauða í íslenska kúastofninum en í gagnaskrá kynbótamatsins eru 26% kálfa undan fyrsta kálfs kvígum skráðir dauðfæddir.

Í kynbótamati fyrir lifun kálfa (LK) eru notuð gögn frá árinu 2004 en fyrir gang burðar (GB) eru til gögn frá árinu 2018 þegar byrjað var að skrá burðarerfiðleika í burðarskráningu gripa í Huppu. Matið fyrir LK og GB skiptist í einkunnir fyrir 1) burð hjá fyrsta kálfs kvígum og 2) burði hjá eldri kúm. Þetta kynbótamat er að frábrugðið öðru mati sem við eigum að venjast í íslenskri nautgriprækt vegna þess að það skiptist einnig í einkunnir fyrir mæðraáhrif annars vegar og feðraáhrif/bein áhrif hins vegar. Ástæðan fyrir þessu er að við hvern burð eru það tveir einstaklingar sem fá mælingu: Kálfurinn og móðirin. Feðraáhrif/bein áhrif eru áhrif kálfsins á eigin fæðingu en mæðraáhrif eru áhrif móðurinnar á burðinn. Því birtast fjórar einkunnir fyrir lifun kálfa (LK 1 feðraáhrif, LK 2 feðraáhrif, LK 1 mæðraáhrif og LK 2 mæðraáhrif) og fjórar einkunnir fyrir gang burðar (GB 1 feðraáhrif, GB 2 feðraáhrif, GB 1 mæðraáhrif og GB 2 mæðraáhrif).

Eins og fyrr segir birtast tvær samsettar einkunnir: Burður feðraáhrif og burður mæðraáhrif. Ef litið er til þessara einkunna hjá sæðinganautum lýsir burður feðraáhrif getu afkvæma nautanna til að fæðast lifandi og auðveldlega. Því hærri einkunn fyrir burður feðraáhrif, því meiri líkur á að kálfar undan viðkomandi nauti fæðist vandræðalaust og lifandi. Einkunn fyrir burður mæðraáhrif lýsir getu dætra nautanna til að eignast lifandi kálfa á auðveldan hátt. Því hærri einkunn, því meiri líkur á að dætur viðkomandi nauts muni bera lifandi kálfum án vandkvæða. 

Samsetning burður feðraáhrif (BFA): LK 1 feðraáhrif 70%, GB 1 feðraáhrif 20%, LK 2 feðraáhrif 5% og GB 2 feðraáhrif 5%.

Samsetning burður mæðraáhrif (BMA): LK 1 mæðraáhrif 70%, GB 1 mæðraáhrif 20%, LK 2 mæðraáhrif 5% og GB 2 mæðraáhrif 5%.

Samsettu einkunnirnar eru birtar á nautaskra.is en í Huppu má sjá allar einkunnir með því að velja grip, flipann kynbótamat og svo allar einkunnir.

Ef rýnt er í erfðaþróun fyrir lifun kálfa má sjá að þróunin hefur verið neikvæð varðandi LK 1 feðraáhrif. Það eru því ekki einungis umhverfisáhrif sem valda of miklum kálfadauða við fyrsta burð. Bændur ættu að geta nýtt sér þetta nýja kynbótamat sem bústjórnartæki til dæmis við kvígusæðingar og valið frekar þau naut sem fá hærri einkunnir fyrir burður feðraáhrif á kvígur.

Dæmi um naut með reynslu:

Til að skýra málið aðeins betur er hér dæmi um naut með reynslu – Trutti 17051 undan Úranusi 10081. Trutti er með mjög lágar einkunnir fyrir feðraáhrif. Einungis 63% af kálfum undan Trutta og fyrsta kálfs kvígum hafa fæðst lifandi en meðaltalið í gagnasafninu er 74%. Kálfar undan Trutta og eldri kúm fæddust í 86% tilfella lifandi en meðaltalið í gagnasafninu er 91%. Þá er meðalburðarerfiðleikaskráning á kálfum undan Trutta hærri en meðaltalið í gagnasafninu.

Dæmið snýst við þegar litið er á dætur Trutta. Af 113 dætrum Trutta báru 78% lifandi kálfi við fyrsta burð og af 48 kálfum sem dætur hans hafa borið á 2. og 3. maltaskeiði fæddust 96% lifandi.

 

Trutti 17051 undan Úranusi 10081
    Feðraáhrif (bein áhrif) Mæðraáhrif
Lifun kálfa 1. burður (LK 1) 76 132
2. og 3. burður (LK 2) 83 124
Gangur burðar 1. burður (GB 1) 60 167
2. og 3. burður (GB 2) 50 168
    Burður feðraáhrif (BFA) Burður mæðraáhrif (BMA)
  Samsettar einkunnir 72 140