Í hinu virta tímariti Journal of Dairy Sceince er búið að birta grein eftir Þórdísi Þórarinsdóttur, hjá RML, og Jón Hjalta Eiríksson og Egil Gautason, hjá LbhÍ. Meðhöfundar þeirra eru Jörn Rind Thomasen og Huiming Liu hjá Viking Genetics og Háskólanum í Árósum í Danmörku. Greinin fjalllar um kynbótaskipulag með erfðamengisúrvali í litlum kúakynjum og er sjónum einkum beint að áhrifum mikillar notkunar heimanauta, kyngreinds sæðis og fósturvísaflutninga á kynbótaskipulag. Ástæða er til að óska höfundunum til hamingju með birtinguna en það er ekki sjálfgefið að fá greinar birtar í ritrýndu tímariti á borð við Journal of Dairy Science. Hér á eftir verður farið nokkrum orðum efni greinarinnar.
Höfundar gerðu rannsókn þar sem líkt var eftir 18 þús. kúa stofni og mismunandi sviðsmyndir skoðaðar þar sem notaður var mismikill fjöldi sæðinganauta, notkun heimanauta var mikil eða engin, kyngreint sæði notað eða ekki og sama má segja um fósturvísflutninga. Einkum var horft til þess hve miklar erfðaframfarir næðust með hinum mismunandi sviðsmyndum auk þess sem skyldleikaræktaraukning var skoðuð. Í stórum dráttum er niðurstaða höfunda sú að erfðaframfarir eru minni með mikilli notkun heimanauta og þó svo þau séu valin út frá erfðamati næst ekki að vinna þann mun upp sem sviðsmyndir án heimanautanotkunar sýna. Mestar erfðaframfarir virðast nást með notkun á kyngreindu sæði og fósturvísaflutningum og þar var aukning skyldleikaræktar innan marka, eða innan við 1% á kynslóð ef notuð voru 15 sæðinganaut eða fleiri. Þá kom einnig fram í rannsókninni að stjórnlaus notkun kyngreinds sæðis er ekki vænleg með hliðsjón af öðrum leiðum, einkum vegna hættu á minna framboði nautkálfa undan bestu kúm og kvígum stofnsins. Fósturvísaflutningar virðast einnig skila töluverðum erfðaframförum samanborið við aðrar sviðsmyndir en hafa þarf mikinn kostnað við þá í huga. Þá mæla höfundar með því að nota kjörframlagaúrval til þess að halda skyldleikaræktaraukningu í skefjum.
Þessi rannsókn er allrar athygli verð og mun verða fyrirmyndin að því skipulagi sem kynbætur íslenska kúastofsins taka mið af á komandi árum. Greinina má lesa með því að smella á hlekkin hér fyrir neðan.
Sjá nánar:
Evaluating genomic breeding programs for a small dairy cattle population with widespread use of private bulls