Mjaltaþjónum fjölgar ört

Mjaltaþjónum fjölgar ört hérlendis eins og víða annars staðar. Við uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar eru teknar saman ýmsar tölur varðandi afurðir, framleiðsluaðstöðu o.fl. en þróun í mjaltatækni er ein af þeirra lykilstærða. Þegar LK tók síðast saman yfirlit um þróun fjósgerða og mjaltatækni við lok ársins 2017 voru mjaltaþjónar 180 búum hérlendis. Í dag er fjöldi búa með mjaltaþjón/a komin í 200 og fjölgar enn. Þetta er 12% fjölgun á aðeins rétt um 12 mánuðum og þýðir að á 36% þeirra búa sem stunda mjólkurframleiðslu í dag er mjaltaþjónn. Miðað við mjólkurinnlegg síðasta árs framleiða þessi bú 53,8% allrar innlagðrar mjólkur. Það liggur því í hlutarins eðli að meðalbústærð þessara búa er mun meiri en meðalbúsins a landinu sem er 274 þús. lítrar. Mjaltaþjónabúin eru hins vegar að meðaltali 410 þús. lítrar eða rétt tæplega 50% stærri en íslenska meðalbúið.

Rétt er að nefna í þessu samhengi að RML vinnur nú í samstarfi við hin Norðurlöndin að gagnvirkri tengingu mjaltaþjóna við nautgriparæktarkerfið Huppu. Með þessari tengingu munu því gögn flæða á milli Huppu og mjaltaþjónanna í rauntíma. Vonir standa til að hægt verði að prófa þetta núna á vormánuðum og tengja í framhaldinu fyrstu mjaltaþjónana.

/gj