Niðurstöður skýrslnanna í nautgriparæktinni í febrúar 2017

Hraunar frá Austvaðsholti
Hraunar frá Austvaðsholti

Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni nú í febrúar hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til um hádegisbilið þ. 13. mars, höfðu skýrslur borist frá 570 búum. Reiknuð meðalnyt 24.739,4 árskúa á þessum búum, var 6.040 kg á síðustu 12 mánuðum. Sambærileg tala fyrir mánuði síðan var 6.057 kg. Rétt er að minna á að ekki er um að ræða alveg full skil skýrslna og skoða ber niðurstöðurnar í samræmi við það auk þess sem talsverðar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu, allmargir hafa hætt framleiðslu á síðustu missirum og inn hafa komið aðrir sem ekki hafa verið með í skýrslunum undanfarin ár. Einnig vil ég nota tækifærið hér til að biðjast velvirðingar á þeirri villu sem komst í útreikninga á próteinhlutfalli mjólkurinnar á síðasta ári og hafði stigvaxandi áhrif á þær tölur þegar kom að lokum þess árs. Fyrir nokkru fannst villan og við þá útreikninga sem hafa verið gerðir undanfarið er próteinhlutfall á skýrslum orðið umtalsvert nær því sem það er í innleggsmjólk.

Mest meðalnyt árskúa á síðustu 12 mánuðum var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal þar sem meðalárskýrin skilaði 9.105 kg. síðustu 12 mánuðina. Bú nr. 2 í röðinni nú var bú Þrastar Þorsteinssonar á Moldhaugum við Eyjafjörð þar sem meðalnyt árskúnna reiknaðist 8.285 kg. á sama tímabili. Þriðja búið í röðinni var Félagsbúið á Espihóli í Eyjafirði þar sem meðanyt árskúa reyndist 8.206 kg. Fjórða í röðinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðaárskýrin skilaði 8.147 kg. á umræddu tímabili. Fimmta búið að þessu sinni var bú Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, en þar var nytin nú 8.083 kg.

Sú kýr sem mjólkaði mest á síðustu 12 mánuðum var Pollýanna 624 (f. Hegri 03014) á Brúsastöðum í Vatnsdal en nyt hennar reyndist 14.956 kg. á síðustu 12 mánuðum. Næst á eftir henni var Nína 676 (f. Ófeigur 02016), einnig á Brúsastöðum en hún skilaði 13.377 kg. á tímabilinu. Þriðja kýrin í röðinni var Jata 555 (f. Kraki 09002) á Hóli í Svarfaðardal en nyt hennar var 13.193 kg. Fjórða kýrin á listanum að þessu sinni var Ágústa 382 (f. Kraki 09002) í Miðhúsum í Blönduhlíð, sem skilaði 13.140 kg. á síðustu 12 mánuðum. Fimmta kýrin nú var Blesa 575 (f. Lykill 02003) á Hjallanesi í Landsveit, en hún mjólkaði 12.729 kg.

Alls náðu 68 kýr á þeim búum, sem afurðaskýrslum fyrir febrúar hafði verið skilað frá um hádegi þ. 13. mars, að mjólka yfir 11.000. kg á síðustu 12 mánuðum. Alls náðu 20 af þessum 68 kúm síðan að skila meiri mjólk en 12.000. kg og enn fremur mjólkuðu fjórar þeirra yfir 13.000. kg á síðustu 12 mánuðum. Til að bæta um betur náði hæsta kýrin af þessum fyrrtöldu því marki að komast yfir 14.000 kg. eins og fram hefur komið.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk