Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í júní

Svarfdal frá Göngustöðum í Svarfaðardal, undan Tanna 15065 og Hörku 481.
Svarfdal frá Göngustöðum í Svarfaðardal, undan Tanna 15065 og Hörku 481.

 

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar nú í júní, hafa nú verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggjast á skilum eins og þau voru um hádegisbilið þann 21. júlí.

Þegar áður nefndar niðurstöður voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 489 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 125 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.664,9 árskúa á búunum 489 reyndist 6.298 kg eða 6.426 kg OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 50,4.

Mest meðalnyt árskúa undanfarna 12 mánuði var á búi Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem meðalnytin var 8.768 kg. á tímabilinu. Í öðru sæti var bú Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal, þar sem nyt eftir hverja árskú reiknaðist 8.626 kg. Þriðja var bú Arnfríðar Jóhannsdóttur í Dalbæ 1 í Hrunamannahreppi, þar sem meðalnyt árskúnna reyndist vera 8.433 kg. Fjórða búið í lok júní var bú Gísla og Jónínu á Stóru-Reykjum í Flóahreppi þar sem hver árskýr mjólkaði að meðaltali 8.371 kg. á tímabilinu. Fimmta var bú Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi þar sem meðalnyt árskúa var 8.323 kg. á fyrrnefndu 12 mánaða tímabili.

Nythæsta kýrin síðustu 12 mánuði var hin sama og undanfarna mánuði, Snúra 546 (f. Dúllari 07024) í Dalbæ 1 í Hrunamannahreppi sem mjólkaði 14.269 kg. Í öðru sæti var Aldís 865 (f. Húni 07041) á Hurðarbaki í Flóa en nyt hennar síðustu 12 mánuðina var 13.389 kg. Þriðja í röðinni að þessu sinni var Mía 536 (f. Ýmir 13051) á Búrfelli í Svarfaðardal sem mjólkaði á tímabilinu 13.370 kg. Fjórða var Stunga 386 (f. Kaktus 16003) í Skipholti 1 í Hrunamannahreppi sem mjólkaði 13.057 kg. á tímabilinu sem um ræðir. Fimmta kýrin að þessu sinni var Vænting 1271 (f. Hrókur 708, sonur Þryms 02042 og dóttursonur Sprota 95036) í Skáldabúðum í hinum forna eystri hreppi, Gnúpverjahreppi en hún mjólkaði 12.730 kg. á síðustu 12 mánuðum.

Alls náðu 130 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum júnímánaðar hafði verið skilað frá nærri hádegi hinn 21. júlí, að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 26 kýr yfir 12.000 kg. nyt á umræddu tímabili. Fjórar af þeim mjólkuðu meira en 13.000 kg. á umræddum tíma og þar af ein meira en 14.000 kg.

Meðalfjöldi kúa á hreinu kjötframleiðslubúunum reiknaðist 28,2 en árskýrnar þar voru að jafnaði 25,6 við lok júní. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum sl. 12 mánuði reyndist 6.270,8 kg.

Meðalfallþungi 9.857 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 252,2 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 748,4 dagar.

 

Sjá nánar:

https://www.rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2022