Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í maí 2017

Flýtir frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum
Flýtir frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum

Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni nú í maí síðastliðnum, hafa nú verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til skömmu fyrir hádegið þann 12. júní, höfðu skýrslur borist frá 554 búum. Reiknuð meðalnyt 24.448,5 árskúa á þessum búum, var 6.069 kg á síðustu 12 mánuðum og hafði aukist um 23 kg. frá fyrra mánuði. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 44,1. Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða skil frá öllum búum sem eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og við seinustu uppgjör, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar skilaði 9.083 kg. mjólkur á tímabilinu. Annað búið í röðinni, líkt og seinast var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit þar sem árskýrin mjólkaði að jafnaði 8.320 kg. á tímabilinu. Þriðja búið nú við lok maí var bú Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal þar sem meðalafurðir árskúnna voru 8.232 kg. á undanförnum 12 mánuðum. Fjórða búið á listanum var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði þar sem meðalárskýrin skilaði 8.097 kg. mjólkur. Fimmta búið var Félagsbúið á Espihóli í Eyjafjarðarsveit þar sem hver árskýr skilaði að meðaltali 8.067 kg á tímabilinu. Búin sem hér eru talin eiga það sammerkt að skýrslum um nyt þar hefur verið skilað jafnt og þétt undanfarið ár.

Nythæsta kýrin við uppgjörið nú var Korna 150 (f. Hræsingur 98046), á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hún skilaði á tímabilinu 13.647 kg. Önnur í röðinni var Pollýanna (f. Hegri 03014), einnig á Brúsastöðum einnig en hún mjólkaði 12.932 kg. síðustu 12 mánuði. Næst henni var Bleik 995 (f. Gráni 890 undan Hersi 97033) á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, en hún mjólkaði 12.370 kg. síðustu 12 mánuði.

Alls náðu 39 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir maí hafði verið skilað frá skömmu fyrir hádegi þ. 12. júní, að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Af þeim reiknuðust 8 hafa mjólkað yfir 12.000 kg. og ein þeirra skilaði meiri mjólk en 13.000 kg. á tímabilinu.

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk