NorFor kemur vel út í samanburði

Samkvæmt niðurstöðu kanadískrar rannsóknar er NorFor betra í að reikna mjólkurframleiðslu miðað við fóðrun en ameríska, hollenska og franska fóðurmatskerfið. Það þýðir að íslenskir kúabændur hafa aðgang að fóðuráætlunum úr heimsins besta fóðurmatskerfi með ráðgjöf frá RML.

Gott fóðurmatskerfi reiknar þarfir gripanna til næringarefna og metur þannig hvers má vænta í framleiðslunni. Þetta þýðir einnig að bóndi fær áætlun til þess að vinna eftir sem miðar að því að halda gripum heilsuhraustum, takmarkar tap næringarefna og þar með nýtingu þeirra, möguleika á að lágmarka umhverfisáhrif og svo auðvitað hagkvæmustu lausnina.

Alþjóðleg ráðstefna fóðurfræðinga ISNH var haldin í Frakklandi í ár, eitt af erindunum á þeirri ráðstefnu var samanburður á helstu fóðurmatskerfum sem eru notuð í Norður Ameríku og Evrópu. Markmiðið var að skoða hversu vel þessi kerfi ná að líkja eftir meltingu fóðurs hjá mjólkurkúm og hversu vel kerfin ná að segja til um framleiðsluna miðað við fóðrunina.

Annað markmið var að reyna að sjá hvaða þættir það eru sem skipta mestu máli fyrir fóðurmatskerfi og hvernig mætti þannig bæta þau enn meira.

Kerfin sem voru með í rannsókninni voru CNCPS frá Cornell í Bandaríkjunum, DVE/OEC frá Hollandi, INRA frá Frakklandi, NRC frá Bandarikjunum og NorFor sem er samnorrænt kerfi Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Íslands.

Borið var saman hversu vel kerfin ná að lýsa próteinsamsetningu og nýtingu hjá mjólkurkúm, með því að skoða niðurbrot í vömb og þörmum sem og tap með skít og þvagi. Þá var skoðað hversu vel kerfin ná að endurspegla nýtingu fóðurpróteins miðað við það mjólkurprótein sem var framleitt í rannsókninni.

Bæði NorFor og INRA sem er franska kerfið komu vel út í þessum samanburði á meðan ekkert hinna kerfanna náði að líkja nógu vel eftir nýtingu próteins í líkamanum til þess að gera fóðuráætlun sem samsvaraði þeirri mjólkur-próteinframleiðslu sem til var ætlast.

NorFor bar af í skilvirkni og það sem kom NorFor framar en hinum kerfunum eru flókin áhrif samspils næringarefna sem NorFor leggur mikið uppúr að ná að líkja eftir, þannig náðu sum kerfin ágætis árangri við ákveðnar aðstæður en ekki aðrar. NorFor náði hinsvegar mjög jafngóðum árangri við mismunandi aðstæður.

Þessi árangur NorFor sýnir okkur að kerfið er með því besta sem gerist í heiminum í dag og að rannsóknir á fóðrun á Norðurlöndunum eru á heimsmælikvarða. Grunnurinn að kerfinu kemur frá rannsóknum sem gerðar hafa verið í Noregi af Harald Volden en styrkleiki kerfisins er án efa samvinna ráðunauta og rannsóknarfólks á Norðurlöndunum. Ráðunautar í öllum löndunum eru að nota kerfið og hittast reglulega og bera saman bækur sínar og leggja til úrbætur. NorFor kerfið er í stanslausri þróun og mun verða á meðan það er notað.

Sjá nánar

Frétt af vef Tine

bóó/okg