Nú er hægt panta nautgripamerki til DNA-sýnatöku

Á undanförnum misserum hefur verið unnið að innleiðingu erfðamengisúrvals í íslenskri nautgriparækt. Einn liður í því er sýnataka úr kvígum en til þess að úrvalið virki er áframhaldandi og víðtæk sýnataka nauðsynleg. Fyrstu niðurstöður úr rannsóknum sýna að við náum ekki nægri framfaraaukningu nema fyrir arfgerðargreinda gripi. Það þýðir að við þurfum að taka sýni úr sem allra flestum kvígum.

Sýnatakan mun nú færast í hendur bænda og verða með þeim hætti að sýni er tekið um leið og merki er sett í kvíguna. Til þess þarf sérstök merki með áföstu sýnatökuglasi. Nú er orðið hægt að panta þessi merki inn á MARK eða bufe.is. Fyrst um sinn standa mönnum einungis til boða merki frá nýjum aðila á þessum vettvangi hérlendis. Það er AgroTag í Danmörku, fyrirtæki sem er með verulega markaðshlutdeild í merkjasölu þarlendis. Þess verður svo vonandi ekki lengi að bíða að Plastiðjan Bjarg-Iðjulundur geti einnig boðið upp á slík merki.

Til að byrja með verður sá háttur hafður á að menn halda áfram með sömu númeraröð og panta merki til skiptis í naut og kvígur. Rétt er að taka fram að nautkálfar verða áfram merktir með hefðbundnum merkjum. Þessu er best lýst með dæmi.

Dæmi: Panta á 100 merki og næsta lausa númer í röðinni er 801. Þá er hægt að panta númer 801-850 í nautkálfa, þ.e. hefðbundin merki, og 851-900 í kvígur, þ.e. merki til sýnatöku. Ef mönnum sýnist svo má að sjálfsögðu snúa þessu við og númera kvígurnar frá 801-850 og nautin frá 851-900. Á sama hátt þarf auðvitað ekki að panta 100 merki í einu, það fer eftir því hvað hentar á hverju og einu búi.

Unnið er að lausn á því að hægt sé að vera með sitt hvora númeraröðina fyrir naut og kvígur fyrir þá sem þykir það henta betur.

Hér á síðunni er að finna ítarlegri upplýsingar og leiðbeiningar ásamt myndbandi sem sýnir merkingu með þessum merkjum.

Athugið við pöntun að velja rétt merki. Frá AgroTag standa til boða fjórar gerðir:

Multi Flex D+D+D+D : Hefðbundin eyrnamerki

Multi Flex D+D+D+D30: Eyrnamerki með örmerki

Multi Flex D+Ddna+D+D: Eyrnamerki til DNA-sýnatöku

Multi Flex D+Ddna+D+D30: Eyrnamerki til DNA-sýnatöku og með örmerki

Örmerkin sem um ræðir eru HDX-merki sem bæði kjarnfóðurbásar og mjaltakerfi eiga að geta lesið.

Sjá nánar:

DNA-sýnataka