Ný nautaskrá komin út

Forsíða nautaskráar 2024. Forsíðumyndina tók Halla Eygló Sveinsdóttir.
Forsíða nautaskráar 2024. Forsíðumyndina tók Halla Eygló Sveinsdóttir.

Nautaskrá fyrir veturinn 2024 er komin úr prentun og verður dreift til kúabænda í kjölfarið. Skráin er á hefðbundnu formi, litprentuð í A4-broti og inniheldur upplýsingar um öll naut í notkun ásamt ítarefni og faglegum greinum. Þar er um að ræða greinar eftir Þórdísi Þórarinsdóttur hjá RML, um breytingar á kynbótamati fyrir efnainnihald mjólkur, um kynbóatmat fyrir lifun kálfa og gang burðar eftir Þórdísi Þórarinsdóttur og Guðmund Jóhannesson hjá RML og um loftslagsáhrif og fóðurnýtingu kúa eftir þá Jón Hjalta Eiríksson og Jóhannes Kristjánsson hjá LbhÍ. Þá er einnig að finna í skránni grein um erfðastuðla júgur- og spenaeiginleika íslenska kúastofnsins eftir Önnu Guðrúnu Þórðardóttur hjá LbhÍ ásamt fleira efni.

Í skránni eru upplýsingar um 16 naut sem er fædd á árunum 2020-2022. Þá eru naut í uppeldi á Nautastöðinni á Hesti kynnt og eru þar á ferðinni gripir sem ætla má að komi til notkunar á komandi mánuðum. Ritstjóri er Sveinbjörn Eyjólfsson, faglegur ritstjóri Guðmundur Jóhannesson, Rósa Björk á Hvanneyri sá um uppsetningu, Snorri Sigurðsson um auglýsingasöfnun og Olgeir Helgi Ragnarsson um prentun. Forsíðumynd skráarinnar er tekin af Höllu Eygló Sveinsdóttur og er af kúm númer 568 og 569 á Hriflu í Þingeyjarsveit. Þær eru dætur Skans 17028 og Ra 17047 og segir liturinn til um hvor er dóttir hvors.

Skráin er nú þegar aðgengileg á nautaskra.is á pdf-formi eða sem rafbók.