Pokar fyrir sýni úr nautkálfum

RML hefur látið gera poka til þess að nota fyrir sýni úr nautkálfum sem koma til greina á Nautastöðina á Hesti. Pokarnir eru merktir þannig að skýrt sé að um forgangssýni er að ræða og með þessu vonumst við til að hægt verði að stytta ferilinn frá því að nautkálfur fæðist og þar til bóndi fær svar við hvort kaupa eigi kálfinn eða ekki. Ráðunautar RML eru þessa dagana að dreifa pokunum samhliða kúaskoðun en auk þess er hægt að fá þá á starfsstöðvum RML á Hvanneyri, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi.

Ferillinn er þá þannig að þegar sammælst hefur verið um að rétt sé að arfgreina nautkálf merkir bóndi hann með DNA-merki, setur sýnið í forgangssýnapoka og sendir. Matís sér þá strax að um forgangssýni er að ræða og sýninu er þá kippt fremst í greiningarröðina. Þegar niðurstaða berst er keyrt erfðamat og í framhaldinu tekin ákvörðun um hvort nautkálfurinn verður keyptur eða ei.