Rekstur kúabúa 2017-2019

Komin er út skýrsla um rekstur og afkomu íslenskra kúabúa fyrir árin 2017-2019. Sumarið 2020 fór Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í það verkefni að fá kúabú til samstarfs um söfnun skýrsluhalds- og rekstrargagna fyrir árin 2017-2019. Vel gekk að fá bændur til þátttöku og voru það í heildina 90 bú sem tóku þátt. Úr þeim upplýsingum sem komu frá bændum var því unnt að vinna ítarlegar greiningar á rekstri búanna og jafnframt gefa bændum kost á að bera gögnin sín saman við önnur þátttökubú, ásamt því að skoða ýmsa þætti skýrsluhalds.

Í niðurstöðum verkefnisins ber helst að telja að mikill breytileiki er í afkomu búanna og þar með mikil sóknarfæri í því að skoða, bæta og breyta bústjórn á kúabúum. Jafnframt eru mikil sóknarfæri í jafningjafræðslu þar sem bændur ræða hvað virkar best á þeirra búum, enda er það alltaf þannig að hægt er að læra eitthvað af vinnubrögðum nágranna, sveitunga og samstarfsaðila.

Að sjálfsögðu kom líka í ljós hversu margt er gert vel í íslenskum landbúnaði enda sýnir þetta verkefni hversu mikill metnaður er hjá bændum til að gera gott betra, öðruvísi hefði ekki verið jafn góð þátttaka og var í verkefninu.

Hér að neðan fylgir lokaskýrsla verkefnisins þar sem má augum líta helstu niðurstöður verkefnisins. Þróunarsjóði nautgriparæktarinnar er þakkað fyrir fjárhagslegan stuðning við verkefnið ásamt því að þakkir eru færðar til allra þeirra kúabænda sem tóku þátt í þessu þróunarverkefni. Verkefnishópurinn telur mikilvægt að fylgja þessu verkefni eftir og þróa það áfram.

Sjá nánar
Rekstur kúabúa 2017-2019

/okg