Skýrsla um afkomu nautakjötsframleiðenda 2017-2021

Komin er út skýrsla um rekstur og afkomu í nautaeldi fyrir árin 2017-2021 en hún byggir á gögnum frá 25 búum í nautaeldi.

Verkefnið byggir á grunni fyrra verkefnis sem gert var grein fyrir í júní 2021 en þá voru 20 bú sem tóku þátt og lögðu fram gögn fyrir árin 2017-2019.  Það hefði verið styrkur í því að fá fleiri bú til þátttöku þar sem að þörfin á svona greiningarvinnu er brýn í þeim ólgusjó sem búgreinin er stödd í.

Greiningarvinnan var unnin út frá skýrsluhaldsupplýsingum og bókhaldi þátttökubúa. Lagt var upp með að þátttökubúin gætu borið saman rekstrarafkomu sína við hin búin í verkefninu með eins skýrum hætti og gagnasafnið bauð upp á.

Niðurstaða verkefnisins er í takt við það sem nautgripabændur hafa rætt sín á milli undanfarin misseri. Afurðatekjur af nautaeldi ná ekki einar og sér að standa undir framleiðslukostnaði.

Verkefnið staðfestir að það er mjög mikilvægt að halda úti raunvöktun á afkomu nautgripabænda og stefnan er að vinna að því áfram og fá fleiri bændur að borðinu til að renna styrkari stoðum undir verkefnið.

Verkefnið er m.a. styrkt af þróunarsjóði búgreinarinnar og niðurstöður þess má finna á þessari slóð: Skýrsla