Ungir kynbótafræðingar ljúka námi

Mynd: Center for Quantitative Genetics and Genomics, Aarhus University (Samsett mynd).
Mynd: Center for Quantitative Genetics and Genomics, Aarhus University (Samsett mynd).

Á þessari stundu fer fram doktorsvörn Egils Gautasonar við Háskólann í Árósum en verkefni hans ber titilinn Erfðafræðilegt val og skyldleikastjórnun í litlum mjólkurkúastofni (e. Genomic selection and inbreeding management in a small dairy cattle population). Egill Gautason rannsakaði tengsl íslenskra nautgripa við önnur kyn, skyldleikaræktun í íslenskum nautgripum, lagði mat á kosti þess að nota erfðafræðilegar upplýsingar við val (svokallað erfðafræðilegt val) og bar saman aðferðir til að stjórna skyldleikaræktun í ræktunaráætluninni í sínu doktorsnámi.

Niðurstöðurnar sýndu að íslenskir nautgripir eru að mestu skyldir norrænum hefðbundnum nautgripakynjum og geta notið góðs af erfðafræðilegu vali. Rannsóknin leiddi einnig í ljós skilvirkar aðferðir til að stjórna skyldleikaræktun í kynbótastarfinu. Þessar niðurstöður eru grunnurinn að innleiðingu erfðamengisúrvals í íslenska nautgriparækt sem er í fullum gangi núna.

Þá styttist óðfluga í doktorsvörn Jóns Hjalta Eiríkssonar en hún fer fram í Árósum þann 15. nóvember n.k.  kl. 9.00 að staðartíma. Doktorsverkefni Jóns Hjalta ber titilinn Erfðafræðilegar spár fyrir blendingsræktaðar mjólkurkýr (e. Genomic predictions for crossbred dairy cows). Í doktorsnámi sínu þróaði og prófaði Jón Hjalti aðferðir við erfðafræðilegar spár fyrir blendingsræktaðar mjólkurkýr. Erfðafræðilegar spár fyrir kýr eru dýrmætt tæki fyrir bændur til að taka bústjórnarákvarðanir innan hjarðar sinna. Hins vegar hafa erfðafræðilegar spár aðallega verið tiltækar fyrir hreinræktaðar kýr og erfðafræðilegar spár um kynbótagildi blendingsræktaðra gripa hafa verið torveldar. Jón Hjalti þróaði aðferð til að rekja arfgerðir samsæta blendingsræktaðra gripa til þeirrar tegundar sem samsæturnar eru upprunnar frá. Með því að nota upplýsingar um upprunakyn er hægt að reikna út nákvæmar erfðafræðilegar spár fyrir blendingsræktaðar kýr. Enn fremur er rakning til upprunalegs kyns gagnleg til að gera grein fyrir misleitni og aðskilnaði milli kynja.

Aðferðirnar auðvelda samtímis notkun blendingsræktar og erfðafræðilegra spáa fyrir kýr, sem hvoru tveggja auðveldar ræktun hraustra og hagkvæmari mjólkurkúa.

Þeir Egill og Jón Hjalti hafa nú þegar lagt mikið fram til íslenskrar nautgriparæktar. Egill með innleiðingu erfðamengisúrvalsins og Jón Hjalti með innleiðingu mælidagalíkans sem hann þróaði fyrir íslenskra mjólkurkýr í meistaranámi sínu fyrir nokkrum árum.

Við óskum þessum ungu og upprennandi vísindamönnum innilega til hamingju með þennan stóra áfanga og væntum mikils af þeim í framtíðinni.