Sýnataka vegna erfðamengisúrvals í gangi

Þessa dagana eru starfsmenn RML að taka og safna vefjasýnum vegna erfðamengisúrvals í nautgriparækt. Búið er að taka 2.472 sýni á 98 búum þegar þetta er skrifað. Sýnatöku er lokið á Vesturlandi og í Rangárvalla- og Árnessýslum. Þá er sýnataka komin vel á veg í Húnavatnssýslum. Í næstu viku er ætlunin að klára sýnatöku þar ásamt Eyja- og Skagafirði og S-Þingeyjarsýslu. Veður og færð mun svo ráða því hvenær hægt verður að taka sýni á Austurlandi og Vestfjörðum sem vonandi verður þó innan skamms.

Nú þegar hafa verið send 1.245 sýni til arfgerðargreiningar hjá Eurofins í Danmörku, 169 sýni úr nautum Nautastöðvarinnar og 1.076 sýni úr kúm. Sýnatakan er hluti af innleiðingu erfðamengisúrvals í íslenskri nautgriparækt en ætlunin er að taka samtals um 4.000 sýni. Tilgangurinn er að stækka hinn svokallaða viðmiðunarhóp úr 8 þús. gripum í ríflega 12 þús. en það mun auka öryggi niðurstaðna til muna. 

Sýnatakan hefur farið fram í mjög góðu samstarfi við bændur sem ævinlega bregðast vel við þegar eftir samstarfi við þá er leitað. Fyrir það er þakkað.