Afkvæmarannsóknir í sauðfjárrækt

Þeir bændur sem ná að uppfylla skilyrði um afkvæmarannsóknir á hrútum eru hvattir til að ganga frá uppgjöri í Fjárvís.is sem fyrst og senda tilkynningu á ee@rml.is um að afkvæmarannsókn sé klár. Sú tilkynning er þá í leiðinni umsókn um styrk vegna afkvæmarannsóknar og því er gott að komi fram til hvaða aðila eigi að greiða styrkinn. Tilkynningar þurfa að hafa borist í allra síðasta lagi fyrir 1. desember.

Styrkupphæð og skilyrði
Haustið 2018 er stuðningur við hverja afkvæmarannsókn að lágmarki 20.000 kr. eða 5.000 kr. á hvern veturgamlan hrút og því hækkar styrkurinn eftir því sem fleiri veturgamlir hrútar eru hafðir með í prófuninni. Kröfurnar eru eins og á síðasta ári, að í hverri afkvæmarannsókn þurfa að vera a.m.k. 5 hrútar og þar af 4 veturgamlir. Hver hrútur þarf að hafa átt að lágmarki 8 afkvæmi af sama kyni sem hafa verið ómmæld og stiguð. Sláturupplýsingar þurfa að byggja að lágmarki á 15 lömbum.

Að ganga frá upggjöri
Vista þarf uppgjör afkvæmarannsóknarinnar í Fjárvís.is. Til að gera afkvæmahópana sem samanburðarhæfasta er best að henda út öllum lömbum sem geta skekkt samanburðin, s.s. lömbum sem ganga sem einlembingar eða hafa misgengist. Þegar búið er að vista annarsvegar kjötmatsuppgjörið og hinsvegar líflambahlutann verður til heildaryfirlit og þar með er uppgjörið klárt. Passa þarf að eingöngu séu þeir hrútar hafðir með sem standast skilyrði fyrir bæði líflambahlutann og sláturlambahlutann því heildaryfirlit mun ekki vistast nema að nákvæmlega sömu hrútar séu báðum hlutum afkvæmarannsóknarinnar.

ee/okg