Afkvæmarannsóknir í sauðfjárrækt

Líkt og undanfarin ár hafa afkvæmarannsóknir sem bændur setja upp sjálfir á sínu heimabúi verið styrktar af fagfé í sauðfjárræktinni.
Styrkurinn í ár er áætlaður 5.000 kr. á hvern veturgamlan hrút. Það eina sem bændur þurfa að gera er í raun að ganga frá afkvæmarannsókninni í Fjárvís og senda síðan póst á ee@rml.is (eða aðra sauðfjárræktaráðunauta RML) og tilkynna að þetta sé klappað og klárt. Miðað hefur verið við að menn sendi tilkynningu um þetta fyrir 15. nóvember. Tilkynningar sem koma eftir það verða teknar góðar og gildar út nóvember. Hinsvegar ef umfangið verður meira en svo að hægt verði að styrkja allar rannsóknir að fullu verða þeir í forgangi sem hafa gengið frá sínum gögnum fyrir 15. nóvember.

Skilyrðin sem þarf að uppfylla:

  • Að lágmarki séu 5 hrútar í samanburðinum
  • Að lágmarki séu a.m.k. 4 þeirra veturgamlir
  • Að hver hrútur hafi átt 8 eða fleiri gimbrar sem hafa hlotið viðurkenndan dóm (afkvæmarannsókn getur einnig byggst á eingöngu á hrútlömbum).
  • Miðað er við að hrútarnir hafi verið notaðir á sambærilega ærhópa m.t.t. aldurs ánna. Þannig er t.d. ekki samanburðarhæft ef einn hrúturinn var bara í gemlingum.
  • Að hver hrútur eigi a.m.k. 15 afkvæmi með sláturupplýsingar. Má vera af blönduðu kyni, þó mælt sé með því að nota eingöngu hrúta sem hafa gengið sem tívíembingar, við sláturuppgjörið til þess að reyna að gera samanburðinn sem nákvæmastan.

Að ganga frá gögnum í Fjárvís:

Á forsíðu Fjárvís er farið inn í „afkvæmarannsóknir“. Þar er hægt að velja uppgjör fyrir „lifandi lömb“ og „kjötmat“. Best er því að byrja á að gera uppgjör fyrir lifandi lömb. Velja þá hrúta sem eru samanburðarhæfir. Vista síðan þá skýrslu. Síðan að gera eins fyrir kjötmatsupplýsingarnar. Þá er mikilvægt að valdir séu til uppgjörs nákvæmlega sömu hrútar og í fyrrihlutanum. Hægt er að henda út lömbum sem menn telja að skekki matið. Síðan er kjötmatsskýrslan líka vistuð. Þá verður sjálfkrafa til heildaryfirlit (það verður ekki til nema nákvæmlega sömu hrútar séu í báðum hlutum rannsóknarinnar). Þar með er þetta klárt !

Markmiðið með þessu öllu saman er að hvetja bændur til að nota lambhrúta á sem skipulagðastan hátt.  Fá strax á fyrsta ári sem bestan afkvæmadóm á þá.  Nú styttist í næstu fengitíð og bændur því hvattir til að leggja upp með vel skipulagðan samanburð á nýjustu kynbótagripum búsins.  

/hh