Alþjóðlegt rannsóknarverkefni tengt riðuveiki hlýtur styrk

Fyrir skemmstu kom í ljós að stórt Evrópuverkefni tengt rannsóknum á riðu með áherslu á riðuveiki á Íslandi hlaut veglegan styrk úr sjóðum Evrópusambandsins eða 190 miljónir. Aðilar að verkefninu eru rannsóknarstofur í Þýskalandi, Stóra-Bretlandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu.

Aðkoma Íslands að verkefninu er í gegnum Tilraunastöðina á Keldum.  Stefanía Þorgeirsdóttir á Keldum fer fyrir íslenska hópnum en auk hennar eru þau Vilhjálmur Svansson, Keldum, Karólína Elísabetardóttir, Hvammshlíð og Eyþór Einarsson RML, sem mynda íslenska hópinn.  En Karólína á sérstakar þakkir skildar fyrir að koma á tengingum milli nokkurra erlendra vísindamanna sem síðan hefur undið upp á sig með blómlegum hætti.

Aðeins takmarkaður hluti af styrknum mun renna til Íslands.  Styrkurinn er hinsvegar forsenda fyrir því að virkja erlendu vísindamennina til samstarfs. Meðal þess sem verkefnið felur í sér eru frekari næmis rannsóknir á mismunandi arfgerðum, rannsóknir á því hvaða riðustofna er að finna á Íslandi og rannsóknir á smitefni í umhverfinu.  Þá verður einnig skoðuð faraldsfræði sjúkdómsins hér á landi og gerðar kostnaðargreiningar á áhrifum hans.

Verkefnið hefst á nýju ári, en að hluta til byggir það á ýmsu sem nú þegar er í gangi. Í tengslum við Fagfund sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á Hvanneyri 6. g 7. apríl sl. fluttu nokkrir erlendir fyrirlesarar erindi á netinu.  Þeir eru allir aðilar meðal þátttakenda í þessu verkefni. 

Hér er um verulega ánægjulegar fréttir að ræða þar sem með þessum styrk verður hleypt auknum krafti í rannsóknir á riðunni.

Á heimasíðu Keldna má finna ýtarlegri frétt um rannsóknina: Smellið hér fyrir fréttina

 

/hh