Arfgerðargreiningar sauðfjár – ÍE tekur á móti sýnum út nóvember

Góður gangur hefur verið í arfgerðargreiningum sauðfjár m.t.t. riðunæmis það sem af er ári en útlit er fyrri að vel yfir 20.000 gripir verði greindir á þessu ári. Bændur voru duglegir strax í vor að taka sýni en eftir vorið var búið að greina u.þ.b. 10.000 sýni, aðalega úr lömbum. Íslensk Erfðagreining (ÍE) hefur séð um greiningar í haust og frá 1. september hafa þegar verið greind þar rúmlega 10.000 sýni og gengið mjög vel.

Í ágúst var gefið út að kjörin í haust (1.600 kr án vsk) giltu til 10. nóv, en í ljósi þess hve þátttaka í greiningum er góð og eftirspurn er mikil mun ÍE taka á móti sýnum út nóvember (miðað við að sýnin séu komin til RML á Hvanneyri 29. nóvember). Eftir það verður áfram hægt að fá sýni greind á vegum RML en kjör og fyrirkomulag næsta árs verða kynnt síðar.

Óhætt er að hvetja bændur til að halda áfram að vera duglegir við sýnatökur. Fyrsta skrefið í því að gera stofninn þolinn er að útrýma áhættu arfgerðinni (arfgerðir sem innihalda VRQ) og draga sem mest úr tíðni hlutlausra gripa (ARQ/ARQ) en í staðin að nota sem kostur er ræktunargripi með verndandi eða hugsanlega verndandi arfgerðir.

Arfgerðargreiningar munu gegna lykilhlutverk á næstu árum í því að rækta upp þolinn stofn. Hversu stór skref menn taka í því að greina stofninn sinn verður breytilegt milli búa eftir því hversu föstum tökum menn taka ræktun gegn riðu en frumskilyrði er að allir ásettir hrútar séu greindir.

/okg