Er búið að ganga frá afkvæmarannsókninni? - framlengdur frestur!

Lambaskoðanir gengu í heildina vel í haust. Haustið var víða frábærlega gott sem gerði alla vinnu við fjárrag skemmtilega og stuðlaði að góðum vexti lamba. Vænleiki var víða með mesta móti og örugglega aldrei meira af glæsigripum sem til skoðunar komu. Þeim niðurstöðum verða gerð betri skil á næstu vikum, t.d. á kynningarfundum um sæðingastöðvahrúta, í Bændablaðinu og hér á vefnum.

Ef einhver hefur gleymt að skrá dóma inn í Fjárvís er rétt að gera það sem allra fyrst. Þeir sem ná að bera saman 5 veturgamlahrúta eða fleiri í afkvæmarannsókn eru hvattir til að ganga frá afkvæmarannsókninni sem fyrst og senda tilkynningu á ee@rml.is að hún sé frágengin. Greiddir verða styrkir upp á 2.000 kr. á hvern veturgamlan hrút af þróunarfé sauðfjársamningsins.

Athugið að frestur til að tilkynna afkvæmarannsóknir hefur verið framlengdur til 30. nóvember. 

Nánar um framkvæmd afkvæmarannsókna:

  • Í afkvæmarannsókn skulu að lágmarki vera 5 veturgamlir hrútar (fyrir þetta haust er þá átt við hrúta fædda 2014).
  • Heimilt er að hafa eldri hrúta með í samanburðinum.
  • Hrútarnir hafi verið notaðir á sambærilega ærhópa.
  • Hver afkvæmahópur skal að lágmarki standa saman af 8 ómmældum og stiguðum lömbum og 15 afkvæmum með kjötmatsupplýsingar. Krafan er að ómmældu lömbin séu öll af sama kyni.
  • Gengið sé frá afkvæmarannsókninni inni í Fjárvís.is og tilkynning send á netfangið ee@rml.is fyrir 30. nóvember (athugið framlengdur frestur!).
  • Ráðunautar RML eru boðnir og búnir að veita aðstoð við þetta verk og túlkun niðurstaðna.

ee/okg