Fræðslufundur um nýtingu sauða- og geitamjólkur

Fullyrða má að ónýtt sóknarfæri liggi í nýtingu sauða- og geitamjólkur hér á landi. Áhugi fyrir mjöltum og vinnslu úr mjólkinni er til staðar, enda möguleikarnir kannski meiri en nokkru sinni áður að bjóða heimaunnar landbúnaðarvörur nú þegar landið okkar er svo vinsæll áningarstaður ferðamanna. Þá er ekki vanþörf á því að skoða alla möguleika sem kunna að vera fyrir hendi í því að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði. 

Fyrirhugað er að halda fræðslufund fyrir þá sem hafa hug á því að hefja mjaltir og vinnslu á afurðum úr sauða- og geitamjólk. Markmið fundarins er að kynna fólki hvaða aðstaða þarf að vera fyrir hendi, hvaða kröfur eru gerðar til aðstöðunnar og að hverju þarf að huga áður en farið er af stað í slíkt verkefni.

Á fundinum mun Sveinn Rúnar Ragnarsson, bóndi í Akurnesi, greina frá reynslu þeirra bænda í Akurnesi af framkvæmd sauðamjalta. Óli Þór Hilmarsson hjá MATÍS mun fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til vinnslunnar samkvæmt núgildandi reglugerðum. Þá mun Sigtryggur Veigar Herbertsson, bútækniráðunautur RML, fjalla um aðstöðu við mjaltir.

Fundurinn er haldinn af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í samstarfi við Landsamtök sauðfjárbænda og Geitfjárræktarfélag Íslands.

Fundurinn verður haldinn á Hvanneyri föstudaginn 23. júní frá kl. 13:00 til 17:00. Þátttaka er öllum opin og ekkert skráningargjald en þátttakendur verða að skrá sig fyrir fram. Skráning fer fram hér í gegnum heimasíðuna (sjá tengil hér að neðan) eða í síma 516-5000. Skráningu lýkur mánudaginn 19. júní.

Nánari upplýsingar veitir Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá RML í gegnum netfangið ee@rml.is eða í síma 516-5014.

Sjá nánar: 

Skráning á fræðslufund um nýtingu sauða- og geitamjólkur

ee/okg