Galli og Glæpon reynast gallagripir

Galli 20-875
Galli 20-875

Tvær vondar fréttir koma hér af sæðingastöðvahrútum.  Annars vegar hefur það komið í ljós þegar sæðingahrúturinn Galli  20-875 frá Hesti var endurgreindur (þar sem skoða átti fleiri sæti á príongeninu en 136 og 154) að hann reynist arfblendinn fyrir áhættuarfgerð (V136).  Því virðist vera að einhvers staðar í ferlinu, hvort sem það er við sýnatöku, merkingar eða greiningu – hafa orðið þessi mjög svo leiðu mistök og hann tekinn á sæðingastöð á röngum forsendum.   Því má búast við að helmingur afkvæma Galla sem nú eru að fæðast vítt og breytt um landið beri áhættuarfgerð.  Því er mikilvægt að þau afkvæmi Galla sem koma til álita næsta haust sem ásetningslömb séu arfgerðargreind þannig að áhættuarfgerðin sé ekki framræktuð.

Gul fita

Hin fréttin er sú að Glæpon 17-809 liggur undir sterkum grun um að vera arfberi fyrir gulri fitu.  Tveir synir hans gáfu lömb síðasta haust sem metin voru gul í sláturhúsi.   Þá vinnur Matís að þróun erfðaprófs til að greina erfðagallann sem veldur gulri fitu í sauðfé, í samstarfi við RML.  Sýni úr Glæpon 17-809 hefur verið prófað hjá Matís og samkvæmt því virðist hann arfblendinn fyrir gulri fitu.  Þó prófið sé ekki orðið 100% öruggt hjá Matís þá eru líkurnar mjög miklar að Glæpon reynist sekur í þessu máli. Trúlega liggur þetta þá í móðurætt hans, en ekki hafa komið vísbendingar fram um að Durtur 16-994 gefi gallann.  Þegar hægt verður að komast í erfðaefni úr Durti verður hann einnig prófaður. 

Gul fita er galli sem ræðst af stöku geni sem er víkjandi og gul fita kemur einungis fram í arfhreinum einstaklingum. Bændur eru hvattir til að hafa samband við RML og/eða Matís ef grunur er á að þessi erfðagalli sér til staðar í tiltekinni ræktunarhjörð. Matís hefur áhuga að fá nokkurn fjölda sýna sem nýtast munu til að þróa aðferðina. Enn fremur sárvantar Matís sýni úr arfhreinum einstaklingi, þ.e. lambi með gula fitu úr haustslátrun (gul fita kemur aðeins fram sé gripurinn arfhreinn fyrir gallanum).

Almennt um hugsanlega erfðagalla

Mikilvægt er að fá upplýsingar um hugsanlega erfðagalla, sérstaklega þegar um er að ræða afkvæmi sæðingastöðvahrútanna.  Einkum er mikilvægt að fá upplýsingar um bógkreppu, en það er þekktur erfðagalli sem lýsir sér í því að framfætur eru fremur stuttir og krepptir þannig að lömbin komast yfirleitt ekki á legg.  Þó gallinn sé ekki algengur kemur hann fram annað slagið.  Þessi galli kemur eingöngu fram í gripum sem hafa fengið genið frá báðum foreldrum – eru því arfhreinir fyrir gallanum (líkt og með gulu fituna).

/gj