Gríptu boltann!

Þekkt er að almenn áhrif afkomu í sauðfjárrækt er mismunandi á milli landshluta. Í kjölfarið á verðfalli sauðfjárafurða haustin 2016-2017 ákvað stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, í samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, að fara af stað með átaksverkefni til stuðnings nýsköpunar í sveitum. Verkefnið hófst á vormánuðum árið 2018 og í ágúst voru haldnir fjórir hvatningarfundir; á Norðurlandi vestra, á Ströndum og í Dölum. Aðalfyrirlesari fundanna var Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta. Hélt hann erindi sem ber yfirskriftina „Leiðin til sigurs“ og er óhætt að segja að erindið hafi mælst vel fyrir miðað við viðbrögð gesta á öllum fundunum, enda er það jákvætt og mjög uppbyggilegt. Að auki voru fengnir til leiks reynsluboltar í þróun og sölu afurða og þjónustu beint frá býli, sem miðluðu af reynslu sinni varðandi þróun og markaðssetningu vara og þjónustu. Stefanía Hjördís Leifsdóttir frá Brúnastöðum í Fljótum hélt erindi á fundum í Víðihlíð og Sævangi, Þorgrímur E. Guðbjartsson frá Erpsstöðum í Dölum hélt erindi í Dalabúð og Matthías Lýðsson frá Húsavík á Ströndum hélt erindi í Höfðaborg.

Þegar unnið er með vörur ýmiskonar og þá ekki hvað síst matvöru er mikilvægt að stunda stöðuga vöruþróun til að mæta sem best þeim þörfum sem neytendur hafa hverju sinni. Þegar svona árar er mikilvægara en nokkru sinni að styðja við hvers kyns vöruþróun og nýsköpun, sem bændur geta nýtt sér til að auka verðmætasköpun á jörðum sínum og þar með til að styrkja rekstrargrundvöll og áframhaldandi búsetu í sveitum. Jafnframt þurfa bændur að leita allra leiða og nýta eins vel og kostur er þann stuðning sem er í boði til framþróunar.

Dagana 19.-21. mars verður ráðist í annan hluta verkefnisins og snýr hann að svipuðum fundahöldum á Norðaustur-, Austur- og Suðausturlandi. Haldnir verða 6 fundir á eftirfarandi stöðum:

  • 19. mars kl 13:00 Ýdalir í Aðaldal
  • 19. mars kl 20.00 Svalbarðsskóli, Þistilfirði
  • 20. Mars kl 13:00 Valaskjálf, Egilsstöðum
  • 20. Mars kl 20:00 Hótel Bláfell, Breiðdalsvík
  • 21. mars kl. 13:00 Hótel Smyrlabjörg, Suðursveit
  • 21. Mars kl 20:00 Hótel Kirkjubæjarklaustur

Aðalfyrirlesari er sem fyrr Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, og honum til fulltingis verða gestafyrirlesarar sem koma til með að miðla sinni reynslu af nýsköpunarverkefnum.

Fundirnir verða öllum opnir og eru sem flestir hvattir til að mæta.

Frekari upplýsingar um fundina og verkefnið í heild má nálgast hjá Sigríði Ólafsdóttur verkefnisstjóra og ráðunauti hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

só/okg