Hrútaverðlaun sauðfjársæðingastöðvanna 2016

Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda á föstudag voru veitt verðlaun sæðingastöðvanna fyrir besta lambaföðurinn starfsárið 2014-2015 og fyrir mesta alhliða kynbótahrútinn 2016. Faghópur sauðfjárræktar ákveður hvaða hrútar eru valdir ár hvert. Danni 12-923 frá Sveinungsvík fékk verðlaun sem besti lambafaðirinn og Rafall 09-881 frá Úthlíð fékk verðlaun sem mesti alhliða kynbótahrúturinn. Ræktendur hrútanna, sem verðlaunaðir voru, hlutu farandgripi sem Sigríður Kristjánsdóttir á Grund útbjó þegar þessar verðlaunaveitingar hófust árið 2009. Á meðfylgjandi myndum sem Sigurður Már Harðarson á Bændablaðinu tók af verðlaunahöfum ásamt Þórhildi Þorsteinsdóttur formanni Búnaðarsamtaka Vesturlands sem afhenti verðlaunin fyrir hönd sauðfjársæðingastöðvanna.

Árni Gunnarsson tekur við viðurkenningu fyrir Danna. smh/BændablaðiðElín Heiða Valsdóttir, Úthlíð tekur við viðurkenningu fyrir Rafal. smh/Bændablaðið

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Danni 12-923 - Besti lambafaðir sæðingastöðvanna starfsárið 2014-2015

Viðurkenning sæðingastöðvanna fyrir „Besta lambaföður“ stöðvanna á starfsárinu 2014 - 2015 kemur í hlut Danna 12-923 en hann fæddist í Sveinungsvík í Þistilfirði vorið 2012. Valið byggir á skoðun lamba sem komu til dóms haustið 2015.
Danni kemur úr öflugri ræktunarhjörð í Sveinungsvík og meðal sæðingahrúta sem koma fyrir í ættartré hans eru Grábotni 06-833, Kveikur 05-965, Cat 04-992, Lómur 02-923 og Áll 00-868.
Haustið 2014 var Danni í afkvæmarannsókn í N-Þingeyjarsýslu á vegum sæðingastöðvanna og á grunni hennar valinn til notkunar á sæðingastöð. Hann kom mjög vel út úr öllum þáttum rannsóknarinnar og sýndi þar styrk sinn sem sterkur lambafaðir.
Danni fékk strax mikla notkun á sæðingastöð og kom því til dóms stór hópur afkvæma hans haustið 2015. Afkvæmi hans eru fallegar kindur á velli, frábær að gerð, lágfætt, útlögumikil, yfirleitt með ágæta bollengd og úrvals holdfyllingu hvar sem á þau er litið. Stigun og ómmælingar staðfesta þessa umsögn. Þungi afkvæmanna reyndist nokkuð yfir meðaltali. Heildarstigun hrútlamba undan Danna var sú hæsta í hópi sæðingastöðvahrúta sl. haust eða 84,4 stig. Kynbótamat hans fyrir skrokkgæði er mjög hátt, þ.e. 123 fyrir gerð og 115 fyrir fitu.
Því miður drapst Danni eftir fyrsta ár sitt á sæðingastöð en vonandi feta einhverjir sonanna í hans fótspor. Danni skipar sér ótvírætt í hóp yfirburða kynbótagripa m.t.t. kjötgæða og ber því vel nafnbótina „Besti lambafaðirinn“ árið 2015.

Danni 12-923

Rafall 09-881 - Mesti alhliða kynbótahrúturinn 2016

Besti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2016 er Rafall 09-881 frá Úthlíð í Skaftártungu. Þar á bæ hefur lengi verið stunduð öflug fjárrækt sem einkennist ekki síst af mikilli afurðagetu ánna. Rafall er af sterkum meiði fjárræktarinnar í Úthlíð, kynbættri með þekktum stöðvahrútum þar sem næstir honum standa Bjálki 06-995 frá Hesti og Lækur 97-843 frá Lækjarhúsum.
Í hóp sæðingastöðvahrúta var hann tekinn sumarið 2012. Næstu þrjá vetur þjónaði Rafall sameiginlegu ræktunarstarfi sem stöðvahrútur. Á því tímabili voru sæddar 2.074 ær við honum vítt og breytt um landið og undan honum hafa verið fullstigaðir 589 lambhrútar. Því er hrúturinn orðinn mikið reyndur bæði sem lambafaðir og ærfaðir en krafan er að komin sé tveggja ára reynsla á dætur hrútsins í gegnum sæðingar til að hann komi til álita í þessu vali.
Einkennandi fyrir afkvæmi Rafals er hinn góði þroski lambanna og þá hefur hann skilað mörgum vel gerðum ásetningshrútum. Í heildina telst hann þó ekki til mestu yfirburðahrúta m.t.t. skrokkgæða en eins og kynbótamat hans sýnir er hann þó í góðu meðallagi fyrir þessa eiginleika með 105 stig fyrir gerð og 104 stig fyrir fitu. Meginkostur hans er hinsvegar að dæturnar reynast frjósamar, úrvals afurðaær og þar hefur kynbótamat hans risið mjög á liðnum árum og er hann í dag með 110 stig fyrir frjósemi og 114 stig fyrir mjólkurlagni.
Rafall er sá hrútur sæðingastöðvanna sem á þessum tímapunkti uppfyllir best allra hrúta þær kröfur sem gerðar eru við valið og er þessi öflugi ærfaðir og alhliða kynbótahrútur hér með útnefndur sem „mesti kynbótahrútur stöðvanna 2016“.

Rafall 09-881

lgb&ee/eib