Kynbótamat sauðfjár 2016

Í Bændablaðinu sem kom út í dag er umfjöllun um kynbótamat sæðingastöðvahrúta byggt á niðurstöðum síðasta útreiknings sem gerður var fyrr í þessum mánuði á frjósemi. Frá hrútaskrá síðasta árs hefur mat fyrir mjólkurlagni líka verið uppfært.

Með þessari frétt fylgja ítarlegri upplýsingar um kynbótamat þeirra sæðingastöðvahrúta sem eiga fleiri en 100 dætur í skýrsluhaldinu fæddar árin 2012-2015 eða voru á sæðingastöð veturinn 2015-2016. Fyrir yngstu hrútana eru upplýsingarnar aðeins frá heimabúi.

Frjósemi dætra sæðishrúta vorið 2016, ær fæddar 2012-2015 


Í haustbókum sem er að berast sauðfjárbændum þessa daganna er tekið tillit til nýjustu uppfærslu kynbótamats þegar ætternismat gripa er reiknað. Breytingar verða alltaf mestar á sæðingastöðvahrútum og helstu breytingar frá síðasta ári eru þessar hér:

Sæðingastöðvahrútar - helstu breytingar

Af hyrndum hrútum skal fyrstan nefna Bósa 08-901, hann lækkar umtalsvert í mati fyrir frjósemi en stendur þó áfram hátt, með 117 í einkunn. Hængur 10-903 fellur í mati fyrir mjólkurlagni og stendur nú í 106. Kölski 10-920 hefur heldur hækkað í mati fyrir frjósemi (123) og stendur nú hæst þeirra stöðvahrúta sem ekki bera frjósemiserfðavísi. Drífandi 11-895 lækkar eilítið í mati fyrir frjósemi, stendur í 109 sem eftir sem áður er há einkunn. Garri 11-908 hefur styrkt stöðu sína hvað varðar frjósemi umtalsvert (106) en fallið í mati fyrir mjólkurlagni (94). Jóker 12-924 hefur styrkt stöðu sína fyrir frjósemi dætra. Tjaldur 11-922 lækkar fyrir frjósemi niður í 118 og mat fyrir mjólkurlagni lækkar í 94. Bekri 12-911 hækkar nokkuð í mati fyrir mjólkurlagni og stendur í 115 og jafnframt hækkar hann örlítið fyrir frjósemi. Saumur 12-915 á nú orðið stóran dætrahóp og hópurinn í heild er undir meðaltali fyrir bæði frjósemi (94) og mjólkurlagni (97). Kjarni 13-927 hefur lækkað fyrir bæði frjósemi (99) og mjólkurlagni (100). Dreki 13-953 hefur hækkað í mati fyrir frjósemi (109).
Af kollóttum hrútum hefur Baugur 10-889 fallið talsvert fyrir frjósemi (90) en í vor kom inn stór hópur dætra á öðrum vetri um allt land. Roði 10-897 fellur einnig umtalsvert fyrir frjósemi (94) og þá hefur Hnallur 12-934 lækkað nokkuð í frjósemi (91) en stendur í stað í einkunn fyrir mjólkurlagni. Serkur 13-941 hækkar heldur fyrir frjósemi frá síðasta ári líkt og Spotti 13-942 gerir. Spotti hækkar fyrir frjósemi (110) en afkvæmi hans í ár verða þau einu úr sæðingum þar sem hann drapst nú í sumar. Voði 13-943 lækkar talsvert fyrir frjósemi (92) líkt og faðir hans Roði. Að öðru leyti eru breytingar á kynbótamati annarra hrúta litlar, þ.e. einkunnir þeirra sveiflast kannski til um 1-3 stig og má sjá nánar í töflunni hvernig hver og einn hrútur stendur.

/eib