Lambadómar haustið 2025

Móttaka á pöntunum á lambadómum er nú hafin. Best er að bændur panti sjálfir í gegnum heimasíðu RML (sjá tengil á forsíðu) en einnig er hægt að hringja í 516-5000 og láta taka pöntunina niður.

Eindregið er óskað eftir því að bændur panti fyrir 20. ágúst svo skipuleggja megi vinnuna með sem hagkvæmustum hætti. Ef ekki liggur fyrir í hvaða viku á að skoða lömbin upp úr miðjum ágúst er vakin athygli á því að hægt er að panta lambaskoðun án þess að panta ákveðna viku. Þeir bændur og skipuleggjendur verða þá í samráði með tímasetningu í framhaldinu og skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Pantanir sem berast fyrir 20. ágúst njóta forgangs við niðurröðun og þeir sem panta síðar geta mögulega lent í verri stöðu með að fá lambaskoðun á þeim tíma sem þeir óska helst eftir. Síðasti dagur sem hægt er að panta vinnu við lambadóma er föstudagurinn 17. október. Pantanir vegna vinnu við lambadóma dagana 13.–17. október þurfa að berast í allra síðasta lagi fimmtudaginn 9. október og verður pöntunarforminu lokað í lok þess dags. Semja þarf sérstaklega við skipuleggjendur lambadóma á hverju svæði um vinnu sem óhjákvæmilegt er að hafa utan tímabilsins 1. september til 17. október. Mikilvægt að fá þær óskir eins tímalega og kostur er.

Eftirtaldir starfsmenn munu sjá um skipulag lambadóma á komandi hausti: 

  • Gullbringu- og Kjósarsýsla, Borgarfjörður, Snæfellsnes, Dalasýsla, Barðastrandarsýslur og Ísafjarðarsýslur: Árni Brynjar Bragason og Oddný Kristín Guðmundsdóttir
  • Strandasýsla og Vestur-Húnavatnssýsla: Sigríður Ólafsdóttir
  • Austur-Húnavatnssýsla: Auður Ingimundardóttir
  • Skagafjörður og Eyjafjörður: Sigurlína Erla Magnúsdóttir
  • Suður-Þingeyjarsýsla: Guðrún Hildur Gunnarsdóttir
  • Norður-Þingeyjarsýsla: Steinunn Anna Halldórsdóttir
  • Múlasýslur: Guðfinna Harpa Árnadóttir
  • Skaftafellsýslur, Rangárvallasýsla og Árnessýsla: Fanney Ólöf Lárusdóttir

Þegar dagskrá dagsins er þéttskipuð er mikilvægt að bændur séu tilbúnir þegar ráðunautar mæta á svæðið. Vinsamlegast hafið þessi atriði í huga við undirbúning lambadóma:

  • Örugg plata/grind á garða til að hafa ómtækið á 
  • Rafmagn fyrir ómtækið
  • Góð lýsing
  • Traust sæti fyrir ómmælingamann og íhaldsmenn (þann sem heldur í lamb hjá ómmælingamanni og þann sem heldur í hjá þeim sem dæmir ef það eru tveir starfsmenn RML)
  • Lömbin eru miklu rólegri ef íhaldsmaður situr þegar lamb er ómmælt og stigað
  • Ef tveir ráðunautar mæta er nauðsynlegt að það séu tveir að draga, helst þrír auk ritara 
  • Hafa lömbin í aðhaldi nálægt ómtæki og draga lömbin sem allra minnst
  • Það þarf að vera búið að vigta lömbin áður en vinna hefst

Sjá nánar: 
Panta lambadóma

/okg