Nýtt kynbótamat í sauðfjárrækt

Nýtt kynbótamat fyrir alla eiginleika hefur nú verið lesið inn í Fjárvís. Til viðbótar við hefðbundar uppfærslur á mati fyrir skrokkgæði sem hafa verið unnar á þessum árstíma, hefur einnig verið keyrt uppfært mat fyrir frjósemi og mjólkurlagni með þeim upplýsingum sem bæst hafa við frá síðustu keyrslu í ágúst.

Því miður kom í ljós að við síðustu keyrslu fyrir frjósemi og mjólkurlagni hafði komið upp kerfisvilla sem varð til þess að meðaltal kynbótaeinkunna fyrir þessa eiginleika voru lægri en eðlilegt var. Það hafði þó ekki áhrif á röðun gripa innan búsins. Þessi villa hefur nú verið löguð í nýju mati.

Við vekjum athygli á því að stefnt er að því að uppfæra mat fyrir mjólkurlagni síðustu í síðustu viku nóvember. Kynbótamat hrúta fyrir mjólkurlagni byggir á upplýsingum um afurðir dætra þeirra og því mikilvægt að fá upplýsingar um sem flestar dætur áður en matið er keyrt. Við hvetjum því skýrsluhaldara til að skila haustbókum sem fyrst þannig að gögn búsins nái inn í uppfært mat.

/okg