Nýtt rit LbhÍ: Fóðrun áa á meðgöngu

Við vekjum athygli á að út er komið rit Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 79: Fóðrun áa á meðgöngu. Höfundur ritsins er Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við LbhÍ og sauðfjárbóndi á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Ritinu er ætlað að gefa leiðbeiningar um ýmis atriði varðandi fóðrun sauðfjár og er fjallað um nýlegar íslenskar tilraunir með fóðrun áa á meðgöngu og einnig tekin saman almennur fróðleikur um sama efni.

Í inngangi segir að þekking á fóðrun áa á meðgöngu byggi að nokkru leyti á framleiðslutilraunum þar sem rannsökuð eru viðbrögð við mismunandi fóðrun, gjarnan mæld í fæðingarþunga lamba, mjólkurframleiðslu ánna og vaxtarhraða lambanna. Tímabil meðgöngunnar eru ólík hvað varðar næringarefnaþörf, og samspil fóðrunar eftir burðinn við fóðrun og ástand ánna á meðgöngunni er mjög mikið. Til að skilja betur hvað ræður áhrifum fóðrunar á afurðir og heilsufar ánna hefur í auknum mæli verið leitast við að gera tilraunir sem hannaðar eru til að afhjúpa undirliggjandi meltingar- og efnaskiptaferla og hormónastjórnun á þeim ferlum.

Við hvetjum sauðfjárbændur til að kynna sér efni ritsins sem hægt er að nálgast á vef LbhÍ.

Sjá nánar:
Rit LbhÍ nr. 79: Fóðrun áa á meðgöngu