Samstarf við Íslenska erfðagreiningu

Kári Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu (ÍE) hefur lýst vilja sínum til þess að aðstoða sauðfjárbændur við arfgerðagreiningar vegna riðu. Starfsfólk fyrirtækisins býr yfir þekkingu sem kemur sér ákaflega vel fyrir þessa vinnu og ásamt góðum tækjakosti gerir þeim kleyft að greina mikið magn af sýnum fljótt og með hagkvæmnum hætti. RML mun því í samstarfi við ÍE endurskoða það verklag sem þegar hefur verið kynnt sauðfjárbændum varðandi greiningar.

Gert er ráð fyrir að halda því fyrirkomulagi sem kynnt hefur verið i vor í megindráttum en smá saman bæta við greiningum frá ÍE og svo verða þá vonandi allar greiningar gerðar innanlands strax í haust. Það er mikið fagnaðarefni að fá svo öflugan aðila í lið með okkur og draumur um að geta greint öll sýni hérlendis er innan seilingar sem bæði einfaldar ferlið, minnkar kostnað og minnkar áhættu. Á næsta ári er gert ráð fyrir mikilli aukningu í fjölda greininga og því mjög áríðandi að vita af vilja og getu ÍE til að koma inn með mjög svo kröftugum hætti.

Eyþór Einarsson ráðunautur RML
Karvel L. Karvelsson framkvæmdastjóri RML

/okg