Sauðfjárrækt - Afkvæmarannsóknir bænda

Þeir sauðfjárbændur sem ná að uppfylla skilyrði fyrir styrkhæfa afkvæmarannsókn á hrútum sínum eru hvattir til að ganga frá henni við fyrsta tækifæri inn í Fjárvís.is og senda tilkynningu á ee@rml.is þegar hún er klár. Miðað er við að tilkynningar hafi borist fyrir 1. desember.

Reglur um styrkhæfar afkvæmarannsóknir eru þær sömu og á síðasta ári:

  • Að í samanburði séu a.m.k. 5 hrútar.
  • Að lágmarki séu 4 veturgamlir hrútar (fæddir árið 2018) í samanburðinum – enda er markmiðið með afkvæmarannsóknunum að fá sem öruggastan dóm á veturgömlu hrútana.
  • Hver hrútur þarf að hafa átt a.m.k. 8 afkvæmi ómmæld og stiguð (öll afkvæmin skulu vera af sama kyni).
  • Hver hrútur þarf að hafa átt að lágmarki 15 afkvæmi með sláturupplýsingar (samtals hrútar og gimbrar).
  • Hrútarnir skulu hafa verið notaðir á sambærilega ærhópa og hóparnir fengið sem jafnasta meðferð. Þannig telst hrútur sem eingöngu er notaður á veturgamlar ær (gemlinga) ekki vera samanburðarhæfur nema allir hrútarnir í afkvæmarannsókninni hafi verið notaðir á veturgamlar ær.
  • Greiddur er 5.000 kr. styrkur á hvern veturgamlan hrút sem er í afkvæmarannsókninni.

Athugið að afkvæmarannsóknin telst ekki frágengin fyrr en búið er að vista annarsvegar uppgjör fyrir kjötmat og hinsvegar fyrir lifandi lömb, með nákvæmlega sömu hrútum í báðum hlutum og þá verður til heildaryfirlit.

Starfsmenn RML geta aðstoðað við að gera upp afkvæmarannsókn og túlka niðurstöður, en slíkt fellur undir gjaldskylda vinnu.

ee/okg