Skoðun hrútlamba haustið 2016

Serkur 13-941
Serkur 13-941

Upplýsingar um skoðun hrútlamba undan sæðingastöðvahrútum nú í haust liggja fyrir og finna má upplýsingarnar í töflu sem fylgir með. Líkt og tölurnar gefa til kynna eru lömbin almennt betri en áður. Hér spilar árferðið stóran þátt, en vænleiki lamba er meiri en áður hefur sést hér á landi og þá ætti hrútakosturinn að vera sá öflugasti til þessa. Ómtölur í skjalinu eru leiðréttar fyrir lífþunga og gögnin miðast við skráða dóma í Fjárvís 31.10.2016.
Meðal hrútlambið stigaðist upp á 84,0 stig í haust. Af hyrndum hrútum átti Hvati 13-926 að jafnaði hæst stiguðu lambhrútana. Þykkasti bakvöðinn mældist í sonum Burkna 13-951 frá Mýrum 2 eða 31,7 mm að jafnaði. Synir Hvata 13-926 og Gríms 14-955 stiguðust hæst fyrir frampart. Hæstu meðltöl fyrir malir og læri áttu synir þeirra Gríms 14-955, Saums 12-915 og Tanga 13-954. Vænsta hópinn átti Höfðingi 10-919 en þeir vógu 49,5 kg, Börkur 13-952 kom þar skammt á eftir með mun stærri hóp sona og vógu þeir 49,3 kg. Útkoma Gríms 14-955 er ekki síst glæsileg í ljósi þess að hann átti afgerandi stærsta hópinn í þessu uppgjöri eða 360 fullstigaða syni.
Af kollóttu hrútunum átti Serkur 13-941 hæst stigaða afkvæmahópinn og stendur í raun efstur allra hrúta þar með 84,8 stig. Baugur 10-889 skilaði þykkasta bakvöðvanum, 30,7 mm að jafnaði. Synir Serks 13-941 voru með best gerða frampartinn. Spotti 13-942 átti síðan þá syni sem sterkastir voru í mölum og lærum. Roði 10-897 hefur löngum gefið góðan þroska og átti nú vænsta hópinn en 33 synir hans vógu 51,8 kg að meðaltali. Krapi 13-940 var mest notaði sæðinga hrútur stöðvanna sl. vetur og kemur því eigi á óvart að hann eigi lang flesta synina sem voru dæmdir eða 359 talsins.
Í heild voru niðurstöður fyrir flesta hrútana mjög góðar og segja þessi meðaltöl aðeins hluta sögunar um gæði þeirra sem kynbótagripa því hóparnir eru misstórir og fá notkun á misöflugum búum. Hluti af þessum hrútum verður áfram í boð á stöðvunum ásamt nýjum vonarstjörnum og verður því öflugt framboð kynbótahrúta í boði. Þeir munu frá rækilega kynningu í hrútaskránni sem kemur út innan tíðar.

Skoðun hrútlamba undan sæðingastöðvahrútum haustið 2016 

 

ee/eib