Útsending haustbóka 2017 og vinna við kynbótamat fyrir frjósemi

Undanfarin ár hefur verið kynbótamat fyrir frjósemi verið unnið áður en útsending haustbóka fer fram. Ljóst er að slíkt mun ekki nást í ár.

Um síðustu áramót tók gildi reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1151/2016 þar sem kveðið er á um tvo formlega skiladaga gagna í sauðfjárrækt. Annars vegar er það skiladagur vorgagna þann 20. ágúst ár hvert og skiladagur haustgagna þann 12. desember ár hvert.
Undanfarin ár hefur RML gefið út sérstakan skiladag vegna vinnu við kynbótamat en slíkt var ekki gert í ár til að valda síður misskilningi enda er núna einn formlegur skiladagur vorgagna sem ekki var áður til í reglugerð.

Þegar gagnaskil sauðfjárbænda undanfarin ár eru skoðuð á stór hluti þeirra sér stað kringum formlega skiladaga. Til að vinna kynbótamat svo það verði sæmilega marktækt er æskilegt að u.þ.b. 80% gagnanna séu skráð, helst meira. Í dag (18.07.2017) eru tæplega 55% gagnanna frá vorinu 2017 skráð í gagnagrunn.

Til upplýsingar er vinnsla á kynbótamati ekki útreikningur sem gerður er á örskotsstundu. Um tímafreka og flókna aðgerð er að ræða. Því verður kynbótamat fyrir frjósemi ekki reiknað fyrr en í lok ágúst og miðað verður við að taka gögnin út þegar formlegur skilafrestur vorgagna er liðinn þann 20 ágúst nk. Því er ljóst að uppfært kynbótamat fyrir frjósemi verður ekki klárt fyrr en í byrjun september og notendum aðeins aðgengilegt gegnum Fjárvís þegar það verður klárt.

Byrjað verður að senda út haustbækur í lok júlí til að kappkosta að þær berist bændum tímanlega. Þær verða ekki með uppfærðu kynbótamati fyrir frjósemi enda þyrfti að bíða með útsendingu haustbóka til byrjun september ef það ætti að nást.

Minnt er á að allir bændur geta prentað út haustbók í Fjárvís þegar uppfærsla kynbótamats verður komin í september. Þeir sem kjósa slíkt og vilja jafnframt ekki fá senda haustbók þurfa að afþakka prentun haustbókar.

Sauðfjárbændur er jafnframt hvattir til þess að ganga frá skilum tímanlega og fyrir 20. ágúst nk. því skv. reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt frestast greiðslur frá MAST frá með 1. september nk. verði ekki þá búið að skila vorgögnum fyrir árið 2017.

Allar nánari upplýsingar um vinnu kynbótamats fyrir frjósemi og prentun haustbóka veitir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, eyjolfur@rml.is

/eib