Af kynbótasýningum, molar frá árinu 2023

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins annast framkvæmd kynbótasýninga hrossa á Íslandi í umboði Bændasamtaka Íslands. Kynbótadómar eru fyrst og síðast stöðluð gagnasöfnun um eiginleika sem taldir eru verðmætir í ræktun hrossa. Eiginleikarnir eru ýmist metnir og stigaðir samkvæmt dómsskala og/eða mældir beinni mælingu. Dómskerfið og þau gögn sem aflað er hafa tekið hægum en öruggum breytingum og þróun á undangengnum áratugum, í takt við nýja þekkingu og breyttar áherslur. Síðast en ekki síst með tilkomu nýrrar tækni. Þannig var notkun svo nefndra taktmæla tekin upp vorið 2017 en þeir skila hófaslætti úr braut rakleitt í eyru dómara í dómpalli.

Kynbótasýningahald dansar í takt við eftirspurn eftir dómum. Meginþungi sýningahaldsins er að vori (maí-júní) en einnig eru sýningar skipulagðar á miðsumri (júlí) og síðsumars (ágúst).

Nokkrar áhugaverðar staðreyndir um IS-kynbótasýningar 2023:

Vor og sumar 2023 voru haldnar 12 sýningar og alls 995 dómar felldir á fjórum sýningasvæðum.

 • Sýningar sunnanlands urðu 8 talsins, 7 á Rangárbökkum við Hellu og 1 á Brávöllum, Selfossi.
  • Felldir dómar á Rangárbökkum, hlutfall af heild: 70%
  • Felldir dómar á Brávöllum, hlutfall af heild: 6,1%
 • Sýningar norðanlands urðu 3, allar að Hólum.
  • Felldir dómar að Hólum, hlutfall af heild: 22,5%
 • Sýning á Austurlandi FM2023.
  • Felldir dómar á FM, hlutfall af heild: 1,4%

Starfsfólk við kynbótasýningar 2023 taldi alls 35 einstaklinga.

 • 18 aðilar komu að dómum, þar af 4 starfsmenn RML en aðrir verktakar.
 • 17 aðilar komu að sýningastjórn, þular- og ritarastörfum, þar af 10 starfsmenn RML en aðrir verktakar.

Aðstæður til sýningahalds hafa batnað til mikilla muna á skömmum tíma með tilkomu reiðhalla og aðstöðu til byggingadóma innandyra. Uppbygging, viðhald og umhirða góðra sýningabrauta er í afar góðu horfi og mikilli sókn í takt við kröfur knapa og jákvæðan metnað og fagmennsku staðarhaldara sem bæta sífellt í nauðsynlegan tækjabúnað til að mæta síbreytilegu veðurfari. Rafrænt skráningarkerfi hrossa til dóms var tekið upp árið 2013 og hefur í flestu tilliti reynst farsællega. Þá hóf fyrirtækið Alendis beinar útsendingar og upptöku allra kynbótasýninga vorið 2021. Þróun undangenginna ára er heldur í átt að færri og stærri kynbótasýningum og í átt að færri sýningasvæðum – en þar ræður eftirspurn ferðinni.

Vegvísir við kynbótadóma, sem birtur er nýr og uppfærður á hverju vori, geymir svör við flestu því sem snýr að framkvæmd og verklagi við dóma og sýningahald. 

Sjá nánar: 
Vegvísir við kynbótadóma 2023

/okg