Afkomuvöktun sauðfjárbúa

Undanfarin tvö ár hefur RML unnið að söfnun og úrvinnslu rekstrargagna frá sauðfjárbúum. Með góðu liðsinni fagráðs í sauðfjárrækt og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins höfum við fengið tækifæri til að halda þessu verkefni áfram og bjóðum sauðfjárbændum enn og aftur að ganga til liðs við okkur í þessu mikilvæga verkefni.

Ávinningurinn af verkefninu er margvíslegur en fyrst og fremst er þetta eini gagnagrunnurinn sem gefur raunverulega mynd af afkomu sauðfjárbænda og jafnframt eini gagnagrunnurinn sem gefur bændum færi á að sjá hvernig þeir standa rekstrarlega í samanburði við aðra starfsfélaga sína.
Verkefnið er bændum að kostnaðarlausu og framlag fagráðs gefur okkur færi á að borga þátttakendum fyrir gögnin sem við fáum til úrvinnslu.
Best er að fá gögnin lykluð m.v. grunnlykla í dkBúbót en einnig má senda landbúnaðarframtal RSK 4.08. Þau bú sem eru með bókhaldið sitt í hýsingu hjá RML geta sent Maríu verkefnisstjóra beiðni um að nálgast þau þar en hún hefur aðgang að þeim sem þjónustufulltrúi við dkBúbót.

Við erum afskaplega þakklát öllum þeim sem hafa lagt lóð á vogarskálar þessa verkefnis og bjóðum bæði eldri og nýja þátttakendur velkomna í verkefnið.

Þau bú sem óska eftir þátttöku í þessu verkefni þurfa að tilkynna slíkt til verkefnisstjóra fyrir 21. ágúst 2020. Verkefnisstjórar eru Eyjólfur Ingvi Bjarnason (eyjolfur@rml.is) og María Svanþrúður Jónsdóttir (msj@rml.is) sem veita nánari upplýsingar.

msj/hh