Afkvæmarannsóknir hafa reynst skilvirkt hjálpartæki í ræktunarstarfinu á mörgum sauðfjárbúum á síðustu áratugum. Til þess að hvetja bændur til að bera saman lambhópa undan hrútum sínum hafa verið greiddir styrkir af fagfé sauðfjárræktarinnar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Reglur um styrkhæfar afkvæmarannsóknir 2025:
- Að lágmarki 5 hrútar í samanburði og þar af a.m.k. 4 veturgamlir (fæddir 2024).
- Hver hrútur eigi að lágmarki 8 afkvæmi af sama kyni ómmæld og stiguð og a.m.k. 15 afkvæmi með kjötmatsupplýsingar.
- Hrútarnir skulu notaðir á sem jafnasta ærhópa þar sem aldur er blandaður. Ekki er tekinn gildur afkvæmadómur hrúta sem eingöngu eru notaðir á veturgamlar ær nema allir hrútarnir í samanburðinum séu notaðir á veturgamlar ær (gemlinga).
- Að gengið sé frá uppgjöri afkvæmarannsóknar í Fjárvís.is.
- Styrkupphæð miðar við 6.500 krónur á hvern veturgamlan hrút.
- Gerð er krafa um að hrútarnir séu arfgerðargreindir.
Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi riðuarfgerðum leiðir til þess að notkun á veturgömlum hrútum hefur aukist og færri eldri hrútar í notkun. Jafnframt má búast við að sá þröskuldurinn sé orðinn hærri sem veturgamlir hrútar þurfa að komast yfir til að fá áframhaldandi notkun. Gildi afkvæmarannsókna hefur síst minnkað við innleiðingu verndandi og mögulega verndandi arfgerða. Með þeim má einmitt draga strax fram hverjir af veturgömlu hrútunum með æskilegar arfgerðir eru jafnframt öflugastir sem lambafeður og ættu skilið að fá frekari notkun.
Æskilegast er að gera upp afkvæmarannsókn áður er ásetningur á eldri hrútum er ákveðinn. Ef það hefur ekki verið gert þá nauðsynlegt að ljúka slíkum samanburði fyrir næstu fengitíð.
Þeir sem telja sig geta uppfyllt skilyrði um styrkhæfa afkvæmarannsókn sem lýst er hér að ofan þurfa að senda tilkynningu um að uppgjöri afkvæmarannsóknar sé lokið til Eyþórs ee@rml.is eða Árna ab@rml.is. Þeir veita jafnframt aðstoð ef bændur þurfa til að klára uppgjör afkvæmarannsóknar. Ef menn vilja að ráðunautar sjái alfarið um uppgjör á rannsókninni þá fellur það undir gjaldskylda vinnu.
Tilkynningar þurfa að berast í allra síðasta lagi 15. desember.
/okg