Árið 2004 ákvað fagráð í hrossarækt að grípa til aðgerða til að lækka tíðni spatts í hrossastofninum með úrvali, enda hafði verið sýnt fram á að um arfgengan sjúkdóm væri að ræða. Úrvalið byggir á röntgenmyndatöku af hæklum stóðhesta og samræmdum aflestri þeirra. Í rúm 20 ár hefur skráning á niðurstöðu röntgenmyndatöku í WF verið forsenda þess að stóðhestar 5 vetra eða eldri geti mætt í kynbótadóm.
Nú þegar hefur mikill árangur náðst, en vísbendingar eru um að tíðni sjúkdómsins hafi lækkað úr 30% í um 10% hjá hrossum á aldrinum 6-12 vetra. Nauðsynlegt er því að halda verkefninu áfram, bæði til að draga enn úr tíðni spatts en umfram allt til að koma í veg fyrir að þessi jákvæða þróun gangi til baka.
Samræmdur aflestur spattmynda hefur verið á höndum sérgreinadýralæknis hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun. Það fyrirkomulag var þó hugsað til bráðabirgða enda ekki lögbundið verkefni stofnunarinnar. Við mannabreytingar hjá Matvælastofnun er nú komið að því að verkefnið færist frá stofnuninni.
Að vel athuguðu máli hefur fagráð í hrossarækt í samráði við sérgreinadýralækni hrossasjúkdóma ákveðið að leita til dr. Sigríðar Björnsdóttur um aflesturinn, enda er hún sérfræðingur í greiningu röntgenmynda með tilliti til spatts og hefur séð um þennan aflestur í rúmlega tuttugu ár. Lágmarks breytingar verða því í raun á framkvæmdinni við þetta; dýralæknar halda áfram að taka myndirnar og senda á Sigríði til greiningar og skráir hún niðurstöðuna í WF. Kostnaður við samræmda greiningu á myndunum mun nú falla beint á stóðhestseigandann og nemur hann 8.000 kr. + vsk. á hest og verður skilgreindur hluti af kostnaði við myndatökuna.
Fagráð í hrossarækt.
/okg