AGROSUS – verkefni um illgresiseyðingu í sátt við umhverfið

RML er þátttakandi í evrópsku samstarfsverkefni um umhverfisvæna illgresiseyðingu, AGROSUS, sem hleypt var af stokkunum í júlí á þessu ári og mun standa yfir í 4 ár. Verkefnið er styrkt af Horizon Europe, rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins og hefur það að markmiði að minnka notkun illgresiseyða og takmarka þar með umhverfisáhrif þeirra og áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika. Að verkefninu standa 16 samstarfsaðilar í 11 löndum, m.a. ráðgjafarstofur, háskólar og bændasamtök.

Verkefnið byggir á hugmyndum landbúnaðarvistfræði (agroecology á ensku). Í landbúnaðarvistfræði er hugmyndum vistfræði, um tengsl milli plantna, dýra, manna og umhverfis, beitt til þess að byggja upp sjálfbæran landbúnað sem stundaður er í sátt við vistkerfi og umhverfið. Landbúnaðarvistfræðilegar aðferðir sem notaðar eru við illgresiseyðingu eru til að mynda skiptiræktun, samplöntun tveggja eða fleiri tegunda og líffræðilegar varnir.

Fyrsta viðfangsefni verkefnisins er að afla upplýsinga um þær illgresistegundir sem eru til mestra vandræða í ræktun nytjajurta í Evrópu, hvaða illgresiseyðar eru mest notaðir og hvaða aðferðir, aðrar en notkun varnarefna, væri hægt að prófa í tilraunum. Munu hugmyndir og skoðanir bænda spila stórt hlutverk í verkefninu og munu þeir ásamt örðum hagsmunaaðilum koma að hönnun aðferða sem notaðar verða í ræktunartilraunum næstu tvö árin.

Sjá nánar:
Vefsíða verkefnisins
Bæklingur um verkefnið

/okg