Áhugaverður fundur um efnagreiningar

Heysýnataka er umfangsmikil hjá RML á hverju hausti og hefur heldur aukist ef eitthvað er. Hún er afar mikilvæg og mjög margir bændur annaðhvort taka hirðingasýni eða fá ráðunaut til þess að koma og taka verkað sýni úr gróffóðrinu. Bændur eru meðvitaðir um að til þess að gera áætlanir og plön fyrir veturinn er betra að vita aðeins hvert næringargildi gróffóðursins er, það tryggir jafnari framleiðslu og heilbrigðari gripi ef menn vita hvað þeir eru með í höndunum og geta þá annaðhvort sparað viðbótarfóður ef gróffóðrið kemur vel út eða unnið fyrirbyggjandi ef eitthvað er ekki eins og best verður á kosið. Það hefur orðið mikil þróun í efnagreiningum á gróffóðri, við erum farin að sjá miklu fleiri næringarefni til viðbótar við stein- og snefilefni, en einnig getum við núna séð hvernig gerjun hefur heppnast í verkuðum sýnum.

Á Íslandi hefur orðið mikil framþróun í þessari þjónustu við bændur með opnum Efnagreiningar ehf á Hvanneyri og núna í haust höfum við hjá RML sent stærstan hluta þeirra gróffóðursýna sem við tökum hjá bændum til Efnagreiningar á Hvanneyri. En þetta gerist ekki að sjálfu sér, þetta er mögulegt því þarna höfum við sérfræðinga sem eru tilbúnir að vinna að þessari framþróun og bjóða þessa þjónustu á Íslandi. Arngrímur Thorlacius, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands er efnafræðingurinn á bak við Efnagreiningu ehf og hefur hann verið að vinna rannsókn þessu tengdu og verður með fyrirlestur í næstu viku sem kallast: "Mat á aðgengi grasa að næringarefnum úr íslenskri ræktarjörð með efnagreiningum og fjölbreytustærðfræði". Fyrirlesturinn er á vegum Guðbrandsstofnunar í Auðunarstofu 8.október kl. 20.00. Aðgangur er ókeypis og það verður heitt á könnunni. Við hvetjum áhugasama um efnagreiningar á grasi og gróffóðri að kíkja á þennan fyrirlestur.

bóó/okg