Angus-fósturvísar

Kýr og kálfar á Stóra-Ármóti (Mynd: Halla Eygló).
Kýr og kálfar á Stóra-Ármóti (Mynd: Halla Eygló).

Í síðustu viku fór fram skolun á fósturvísum úr sjö Angus kvígum á Stóra-Ármóti sem fæddar voru haustið 2018. Alls náðust 46 fósturvísar og var sjö af þeim komið fyrir ferskum í kúm á Stóra Ármóti en hinir 39 voru frystir. Þeir fósturvísar standa nú bændum til boða til kaups. Fósturvísaskolunina framkvæmdi Tjerand Lunde, norskur dýralæknir og sérfræðingur í meðhöndlun og uppsetningu fósturvísa. Fósturvísarnir eru allir úr dætrum Li’s Great Tigre 74039 en Draumur 18402 er faðir þeirra.
Hjá Nautís hefur sú ákvörðun verið tekin að hver fósturvísir kosti 25.000 kr. án vsk og að auki verða innheimtar 100 þús kr. án vsk fyrir fæddan kálf. Nautís setur sem skilyrði að þeir sem annist fóstuvísainnlögnina hjá bændum hafi fengið tilsögn eða hafi reynslu og áskilur sér rétt til að ráðstafa fósturvísunum meðal umsækjanda út frá landfræðilegri dreifingu og hámarks árangri. Hægt er að sækja um kaup á fósturvísum á netfangið sveinn@bssl.is fyrir 25 febrúar n.k.

/gj