Angus-nautin á Stóra-Ármóti farin að gefa sæði

Draumur 18402
Draumur 18402

Sæðistaka úr Angus-nautunum á Stóra-Ármóti mun hefjast innan skamms en á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands er sagt frá því að í gær (7. ágúst) hafi fyrstu sæðisskammtarnir náðst úr tveimur nautanna. Undirbúningur hefur staðið yfir frá því snemma í júlí en um síðustu mánaðamót lágu fyrir niðurstöðu sýnatöku m.t.t. til smitsjúkdóma. Þau sýni reyndust öll vera neikvæð, þ.e. enga sjúkdóma er að finna í gripunum.

Nautin eru um eða að verða 11 mánaða gömul og því ljóst að þetta er fyrsti tími til sæðistöku. Það sæði sem náðist í gær var eingöngu til prófunar en var ekki tekið til frystingar en þess verður þó að geta að sæðisgæði voru vel viðunandi miðað við að um fyrstu skammta var að ræða. Ef vel gengur ætti nýtt holdasæði því að geta komið til dreifingar í lok ágúst eða byrjun september.

/gj