Ársuppgjör - niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2013

Tígulstjarna, Ytri-Skógum. Mynd: Birna Sigurðard.
Tígulstjarna, Ytri-Skógum. Mynd: Birna Sigurðard.

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2013 hafa verið reiknaðar og birtar á vef okkar. Þeir framleiðendur sem skiluðu afurðaupplýsingum á árinu voru 584 en á síðasta ári voru þeir 587. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 22.509,1 árskýr skilaði 5.621 kg nyt að meðaltali. Það er hækkun um 15 kg frá árinu 2012 en þá skiluðu 22.879 árskýr meðalnyt upp á 5.606 kg. Mestar meðalafurðir nú voru í Skagafirði 5.976 kg eftir árskú. Sama var uppi á teningnum eftir árið 2012 en þá var meðalnytin einnig mest þar, 6.095 kg. Meðalbústærð reiknaðist 38,5 árskýr á árinu 2013 en sambærileg tala var 38,9 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 52,8 kýr en 2012 reiknuðust þær 53,3.

Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2013, var á búi Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, A-Hún. 7.693 kg á árskú. Það bú var einnig meðal hinna 10 efstu á árinu 2012. Annað búið í röðinni árið 2013 var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði, S-Þing. en þar var nytin 7.524 kg eftir árskú. Þriðja í röðinni við uppgjörið nú var Félagsbúið í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum, Rang. en þar var meðalnyt árskúnna 7.482 kg. Í fjórða sæti var bú Helga Bjarna Steinssonar á Syðri-Bægisá í Öxnadal, Eyj. þar sem meðalafurðir árskúnna voru 7.475 kg. Fimmta búið var bú Eggerts Pálssonar á Kirkjulæk í Fljótshlíð, Rang., meðalnytin þar var 7.433 kg eftir árskú. Næsta bú, nr. 6 á listanum, var bú bræðranna Björns og Svavars Birkissona í Botni í Súgandafirði, V-Ís. með meðalafurðir upp á 7.421 kg eftir árskúna. Sjöunda var bú Sigurðar og Báru í Lyngbrekku á Fellsströnd, Dal. en þar reiknaðist meðalnyt árskúnna 7.399 kg. Áttunda búið í röðinni var bú Valdimars Óskars Sigmarssonar í Sólheimum í Sæmundarhlíð, Skag. með meðalnyt árskúa 7.394 kg. Hið níunda á listanum var bú Arnars Bjarna og Berglindar í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en þar voru meðalafurðirnar 7.281 kg eftir árskú. Tíunda búið í röðinni að þessu sinni var bú Guðlaugar og Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit, Snæf. en þar námu reiknaðar meðalafurðir árskúa 7.270 kg. Meirihluti þeirra búa, sem hér hafa verið talin, fannst á hliðstæðum lista fyrir ári síðan og þau þeirra sem ekki voru í 10 efstu sætunum þá mátti finna á fyrstu síðu listans yfir afurðahæstu búin árið 2012, þannig að hér eru þeim sem til þekkja öll nöfn kunnugleg. Á 26 búum reiknaðist meðalnyt árskúa yfir 7.000 kg árið 2013 en 20 bú náðu því marki árið 2012.

Nythæsta kýrin á skýrsluhaldsbúunum árið 2013 var Tígulstjarna nr. 411 í Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum, Rang., undan Hjálmi 04016, en hún mjólkaði 12.112 kg með 2,87% fitu og 2,97% prótein. Önnur í röðinni árið 2013 var Huppa nr. 1123 á Stóra-Ármóti í Flóa, Árn. undan Kappa 01031 en hún mjólkaði 11.735 kg með 4,55% fitu og 3,27% prótein. Þriðja nythæsta kýrin var Ausa nr 306 í Garðakoti í Hjaltadal, Skag., undan Þverteini 97032, en nyt hennar á árinu var 11.628 kg með 4,05% fitu og 3,33% prótein. Fjórða nythæsta kýrin var nr. 722 í Þrándarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Árn., dóttir Teins 97001 en hún mjólkaði 11.372 kg með 4,00% fitu og 3,49% prótein. Fimmta í röðinni var Drottning nr. 528 í Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum, Rang. en hún skilaði 11.332 kg á árinu með 3,70% fitu og 3,21% prótein. Alls skiluðu 8 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af ein, fyrrnefnd Tígulstjarna, yfir 12.000 kg. Árið 2012 náðu 14 kýr nyt yfir 11.000 kg.

Töflurnar með uppgjörinu má finna hér

/sk