Auglýst eftir þátttakendum í rekstrarverkefni kúabænda

Um er að ræða framhald á verkefni sem fór af stað sumarið 2020. Þá tóku 90 kúabú þátt sem lögðu inn rekstrargögn frá árunum 2017-2019. Framleiðsla þessara búa svaraði til 20-21% af heildarframleiðslu mjólkur á landvísu á því tímabili. Þátttökubúin fengu ítarlega greiningu á sínum rekstri þar sem þau gátu borið sinn rekstur saman við önnur bú í verkefninu. Sú greining gaf bændum möguleika á að greina styrkleika og veikleika í sínum rekstri og setja sér markmið um bætta rekstrarafkomu. 

Niðurstaða greininga á rekstrargögnum þessara búa sýndi mikinn breytileika í ýmsum þáttum rekstrarins og undirstrikar mikilvægi bústjórnarlegra þátta þegar kemur að búrekstrinum. Skýrsla með niðurstöðum verkefnisins er aðgengileg á heimasíðu RML og ber heitið Rekstur kúabúa 2017-2019. 

Þeir sem tóku þátt í fyrra þurfa nú einungis að skila inn rekstrargögnum fyrir árið 2020 til okkar. Jafnframt bjóðum við nýja þátttakendur velkomna sem þurfa þá að skila inn rekstrargögnum fyrir árin 2017-2020. Æskilegast er að fá lykluð gögn úr bókhaldsforritinu dkBúbót en einnig verður unnið úr landbúnaðarframtölum séu sundurliðuð gögn ekki til staðar. Fyllsta trúnaðs verður gætt og skilyrði persónuverndarlaga uppfyllt. 

Gagnasöfnun er nú þegar hafin og má búast við því að greiningarskýrsla verði afhent hverju búi í byrjun desember og að eftirfylgni til bænda fari fram í janúar á næsta ári. Verkefnið fékk vilyrði fyrir styrk úr þróunarsjóði nautgriparæktarinnar sem mun standa undir hluta af kostnaði við verkefnið. Þátttökugjald verður því sem nemur 2 klst vinnu eða 16.000 kr án vsk hjá fyrri þátttakendum en sem nemur 4 klst vinnu hjá nýjum enda er þar verið að vinna úr rekstrargögnum fyrir fleiri ár. Þátttökugjaldið verður innheimt eftir að bú hefur fengið sína skýrslu og greiningu. 

Þeir bændur sem hafa áhuga á að vera með í þessu verkefni eru hvattir til að hafa samband sem fyrst við einhvern af starfsmönnum verkefnisins: 

 

  • Guðfinna Harpa Árnadóttir s: 516-5017 eða gha@rml.is 

  • Kristján Óttar Eymundsson s: 516-5032 eða koe@rml.is 

  • María Svanþrúður Jónsdóttir s: 516-5036 eða msj@rml.is 

  • Runólfur Sigursveinsson s: 516-5039 eða rs@rml.is 

  • Sigríður Ólafsdóttir s: 516-5041 eða so@rml.is