Aukakynbótamatskeyrslur yfir sláturtíðina 2023

Nú er hafinn einn af háanna tímum sauðfjárræktarinnar. Á næstu vikum er verið að smala, vigta, slátra og ákveða ásetning næsta árs. Því viljum við rifja upp og minna á nokkur atriði.

Aukakynbótamatskeyrslur í september og október
Það verða keyrðar tvær aukakynbótamatskeyrslur yfir sláturtíðina 2023. Gögn sem rata tímanlega inn í Fjárvís um sláturmat, fallþunga og lífþunga lamba 2023 ásamt mælingum á ómvöðva og ómfitu úr lambadómum verða notuð til að uppfæra kynbótamat gripa fyrir: Gerð, ómvöðva, fitu, ómfitu, fallþunga og lífþunga.

Við viljum því eindregið hvetja bændur til að vigta sem flest lömb beint af sumarbeitinni og skrá lífþungann inn í Fjárvís ásamt því að staðfesta hratt og vel sláturupplýsingar sem berast. Uppfærsla á kynbótamati sem byggir á gögnum frá núverandi hausti getur aðstoðað bændur við að velja endanlegar ásetningsgimbrar og lambhrúta ásamt því að styrkja mat eldri gripa.

Gögn frá haustinu 2023 verða tekin úr Fjárvís á eftirfarandi dagsetningum og kynbótamat í Fjárvís uppfært nokkrum dögum síðar:
- 18. september - Mánudagur
- 2. október - Mánudagur

Nýjar einkunnir og kynbótamatsyfirlitið í Fjárvís
Síðastliðinn vetur birtust sex nýjar kynbótamatseinkunnir fyrir sauðfé í Fjárvís: Ómvöðvi, ómfita, fallþungi bein áhrif, fallþungi mæðraáhrif, lífþungi bein áhrif og lífþungi mæðraáhrif. Eru þessar einkunnir viðbót við fyrri eiginleika: Gerð, fitu, frjósemi og mjólkurlagni. Nýju einkunnirnar sex eru því miður ekki prentaðar í haustbókunum en auðvelt er að nálgast þær í Fjárvís ef farið er inn í „Yfirlit“ og þaðan í „Kynbótamat“ (sjá mynd 1).


Í kynbótamatsyfirlitinu er hægt að velja hvaða hópar birtast í yfirlitinu og er hægt að hlaða niður lista með einkunnum í Excel skjali ef ýtt er á „X“ takkann lengst til hægri (sjá mynd 2).


Dálkurinn sem heitir „Heildareinkunn“ er heildareinkunn ákveðin af Fagráði í Sauðfjárrækt og eru vægi eiginleika þessi: Gerð 25%, fita 5%, fallþungi bein áhrif 20%, fallþungi mæðraáhrif 20% og frjósemi 30%.

Dálkurinn sem heitir „Einkunn bónda“ er einnig nýjung en með því að fara inn í „Notandi“ og svo „Stillingar“ (sjá mynd 3) geta bændur skilgreint sína eigin heildareinkunn sem birtist í þessum nýja dálki. Bændur geta því sett sín eigin ræktunarmarkmið og raðað upp gripum búsins út frá sínum forsendum.


Kynbótamat fyrir þunga
Ef til vill eru einhverjir sem átta sig ekki á hvernig á að túlka þessar fjórar nýju þungaeinkunnir.

Fallþunga- og lífþungamælingar lamba eru keyrðar saman í kynbótamati. Leiðrétt er fyrir kyni, burði lamba, fjölda lamba sem gengu með móður, aldri móður, aldri lamba við vigtun/slátrun og fyrir bú*árs áhrifum.

Einkunnir fyrir – bein áhrif – fallþunga og lífþunga eiga að vera mat á vaxtargetu lambanna sjálfra. Dæmi: Hrútar sem feðra lömb sem eru þung og væn við vigtun og/eða slátrun fá góðar einkunnir fyrir fallþunga/lífþunga bein áhrif.

Einkunnir fyrir – mæðraáhrif – fallþunga og lífþunga er eins og nafnið gefur til kynna mat á afurðagetu/mjólkurlagni áa til að ala af sér þung og væn lömb. Dæmi: Reyndir hrútar sem fá góðar einkunnir fyrir mæðraáhrif fallþunga/lífþunga virðast feðra dætur sem eru mjólkurlagnar og skila af sér þungum lömbum eftir sumarið.

Uppfært kynbótamat fyrir frjósemi
Búið er að reikna aftur og uppfæra kynbótamat fyrir frjósemi í Fjárvís en vegna ábendinga sem bárust uppgötvaðist að ekki var allt með felldu í ferlinu við útreikninga matsins í ágúst samanborið við fyrri ár. Þetta hafði aðallega áhrif á smærri bú. Beðist er innilegrar afsökunar á þessum mistökum og þeim óþægindum sem þau valda. Jafnframt er ánægjulegt að vita að bændur fylgjast vel með þessum mikilvæga þætti í kynbótastarfinu.

/okg