Bógkreppa – erfðapróf

Þeir sem vilja fá framkvæmt erfðapróf fyrir bógkreppu nú fyrir fengitíma eru hvattir til að senda inn sýni sem fyrst, en nú er verið að safna í sýnakeyrslu á þeim sýnum sem greina þarf fyrir fengitíma. Stefnt er að því að sýni sem verða komin til RML í síðasta lagi 17. nóvember verði komin með niðurstöður eigi síðar en 4. desember, niðurstöður verða síðan lesnar inn í Fjárvís.

Hvert skal senda sýnin? Til RML. Gott er að senda sýnin á skrifstofu RML í Reykjavík ( RML, Höfðabakka 9, 4 hæð, 110 Reykjavík).

Hvernig sýni? Það er hægt að nýta hylkin sem bændur hafa verið að kaupa vegna riðuarfgerðargreininga.

Hvernig á að skrá sýnin? Sýnanúmer er forskráð á viðkomandi grip í Fjárvís. Það er gert undir „skráningar“ í Fjárvís, þar þarf að velja „forskráning á öðrum arfgerðargreiningum“. Matís er skráð sem greiningaraðili.

Hvernig skal ganga frá sendingunni? Sýnin séu sér í poka. Blað fylgi með þar sem skýrt kemur fram að sýnin séu vegna bógkreppu. Tilgreina skal greiðanda. Einnig fylgi listi yfir gripanúmer og sýnanúmer og frá hvaða búi sýnin koma.

Hvað kostar greiningin? Greiningin er nú á tilboði þar sem enn eru þessar greiningar partur af þróunarverkefni tengt bógkreppurannsóknum. Gjald fyrir hvert sýni verður að hámarki 3.000 kr. Hugsanlega talsvert lægra en fer eftir þátttöku.

/okg