Bollastaðir, þátttakendur í Loftslagsvænum landbúnaði, hljóta landbúnaðarverðlaunin 2022

Frá afhendingu Landbúnaðarverðlauna 2022, talið frá vinstri: Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, …
Frá afhendingu Landbúnaðarverðlauna 2022, talið frá vinstri: Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð, Kristján Oddsson, einn aðaleigenda Biobús og bóndi á Neðra-Hálsi og Elínborg Aðils, sem tók við verðlaununum fyrir hönd dóttur sinnar, Borghildar, og Ragnars Inga Bjarnasonar á Bollastöðum. Mynd Bændablaðið / HKr

Landbúnaðarverðlaunin í ár hlutu Bollastaðir í Austur-Húnavatnssýslu en að búinu standa Borghildur Aðils og Ragnar Bjarnason. Verðlaunin voru afhent á Búnaðarþingi 2022 sem hafði yfirskriftina „framsýnn landbúnaður“. Aðrir verðlaunahafar voru lífrænt vottaða mjólkurvinnslan Biobú og Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi. Svandís Svavarsdóttir afhenti verðlaunin en verðlaunagripurinn er hannaður af vöruhönnuðinum Ólínu Rögnudóttur fyrir íslenska hönnunarmerkið FÓLK.
 
Loftslagsvænar aðferðir sem auka framleiðni og hagræðingu í búrekstri
Bændurnir á Bollastöðum eru þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði og eru að innleiða loftslagsvænar aðferðir sem minnka kolefnissporið en auka um leið framleiðni og hagræðingu í búrekstrinum. 

Mynd í einkaeiguÍ aðgerðaáætlun Bollastaða í loftslagsmálum fyrir árin 2020 til 2025 eru metnaðarfullar og raunhæfar aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ber þar helst að nefna minni notkun tilbúins áburðar með betri nýtingu búfjáráburðar, belgjurtaræktun og nákvæmnisdreifingu. Einnig er markmið þeirra að draga úr iðragerjun með aukinni framleiðslu á hvern grip og draga saman í olíunotkun með hagræðingu í notkun véla. Hjónin á Bollastöðum vinna einnig að kolefnisbindingu með landgræðslu, leggja áherslu á sjálfbæra landnotkun, ræktun hagaskóga og skjólbelta ásamt því að meta möguleika til nytjaskógræktar. Hringrásarhagkerfið er þeim hugleikið þar sem þau leitast við að viðhalda verðmætum auðlinda eins og kostur er. 

Mikill heiður að fá landbúnaðarverðlaunin fyrir innleiðingu á loftslagsvænum lausnum
Borghildur og Ragnar telja það mikinn heiður að fá landbúnaðarverðlaunin fyrir innleiðingu á loftslagsvænum lausnum í þeirra búrekstri og vonast til þess að verða fyrirmyndir fyrir þá bændur sem stefna að því að innleiða loftslagsvænar aðgerðir í sínum búskap. 

Verkefnið loftslagsvænn landbúnaður dregur úr kolefnislosun á búinu
Börn Borghildar g Ragnars í búskapnumUm verkefnið Loftslagsvænan landbúnað segja þau: „Að vera í slíku verkefni er mikill skóli og fáum við mjög góða fræðslu og ráðgjöf um hvernig hægt er að nálgast og framkvæma þær aðgerðir sem til þarf hvort heldur sem er aðgerðir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eða aðgerðir til aukinnar kolefnisbindingar.  RML hefur haldið utan um verkefnið og staðið sig með prýði og margt skemmtilegt og nýtt sem finnst í þeirri fræðslu sem þau sem þar starfa hafa skipulagt fyrir búin sem standa að þessu verkefni í samvinnu við Landgræðsluna og Skógræktina. Að vera í verkefninu Loftlagsvænum landbúnaði mun draga úr kolefnislosun búsins okkar til lengri tíma og við munum standa í kolefnisbindandi aðgerðum á komandi árum að auki eins og finnst í aðgerðaáætluninni okkar hér á búinu, enda er það stefnan að vera kolefnishlutlaus. Í þjóðfélaginu hefur orðið vitundarvakning í loftlagsmálum og allir ættu að taka þátt í aðgerðum þar að lútandi til framtíðar, fyrir komandi kynslóðir.“

Myndir í einkaeigu.

Borghildur Aðils og Ragnar Ingi Bjarnason á Bollastöðum.

Börn Borghildar og Ragnars í búskapnum.