Breytingar á vaxtakjörum – lækkun vaxta á óverðtryggðum lánum

Síðustu misseri hefur orðið svolítil lækkun á vaxtatöflum viðskiptabanka og fjármálafyrirtækja.
Eingöngu er um að ræða breytingar á óverðtryggðum lánum og er ástæðan fyrst og fremst lækkun á stýrivöxtum Seðlabankans síðustu misseri.
Nánar má sjá lægstu vexti einstakra lánaflokka eftir einstökum fjármálafyrirtækjum sem bændur hafa viðskipti við hér í töflunni sem fylgir. Vaxtakjör - tafla.
Miðað er við útgefnar vaxtatöflur frá 1. júlí sl. hjá helstu fjármálafyrirtækjunum.

Ofan á þessi lægstu kjör hjá viðskiptabönkunum kemur yfirleitt álag á grunnvextina, mismikið eftir stöðu hvers og eins lántakanda.
Vextir á lánum til íbúðakaupa hafa farið lækkandi hjá viðskiptabönkunum m.a. vegna samkeppni frá einstökum lífeyrissjóðum síðustu misseri.
Lán Byggðastofnunar eru annars vegar almenn skuldabréfalán og síðan sérstakur lánaflokkur til landbúnaðar vegna jarðakaupa/framkvæmda og nýliðunar með 5% vöxtum ofan á verðtryggingu. Þar eru jafnframt gefnir möguleikar á að greiða eingöngu vexti fyrstu árin t.d. á meðan verið að takast á við stækkun viðkomandi bús.
Lán Lífeyrissjóðs bænda eru einstaklingslán, óbundin með ákveðnu vali um lánstíma og eins greiðslukjör fyrstu ár frá lántöku.
Bændur eru hvattir til fylgjast með kjörum sínum á einstökum lánum, sérstaklega á óverðtryggðum fjárskuldbindingum, bæði skuldabréfalánum, véla- og tækjalánum sem og yfirdráttarlánum þar sem stýrivaxtalækkanir Seðlabankans ættu að skila sér að fullu á þau lánsform.

rs/hh