DNA sýni hrossa

Vetrarmánuðir eru kjörtími til að sinna DNA-stroksýnatökum úr þeim hrossum sem stefnt er með í kynbótadóm að vori. Starfsmenn RML og dýralæknar vítt og breitt um landið annast stroksýnatökur og sýnin eru greind af þekkingarfyrirtækinu Matís í Reykjavík. Stroksýni eru tekin úr nösum örmerktra hrossa. Þá er einnig tilvalið fyrir eigendur ungra stóðhesta að huga að öllum forsendum DNA-ætternissönnunar í tíma.

  • Stóðhesta, á leið í dóm, verður að vera hægt að staðfesta bæði í föður- og móðurlegg; þ.e. sýni verða að liggja fyrir úr báðum foreldrum upprennandi stóðhestsefna.
  • Athugið að í þeim stöku undantekningartilfellum þar sem faðir eða móðir stóðhests er fallin/fallinn, án sýnatöku, er á stundum möguleiki að bjarga málum með því að komast í tæri við nokkur systkini stóðhestsins. Það er þó ótryggari og kostnaðarsamari Krýsuvíkurleið að sama marki og ræktendur eru eindregið hvattir til að láta DNA-greina ræktunarhryssur sínar allar, mögulegar stóðhestamæður.
  • Minni kröfur eru gerðar til sýndra hryssna en við kynbótadóm er skilyrði að sýni liggi fyrir úr hryssunni sjálfri – burtséð frá því hvort sýni séu til úr foreldrum.
  • Sömu DNA-kröfur eru gerðar til geldinga og hryssna við kynbótadóm.
  • Matís bíður enn fremur upp á svo nefndar skeiðgensgreiningar sem eru staðfesting á arfgerðarmöguleikunum AA-CA-CC en hver þessara arfgerða hefur þekkt og afgerandi áhrif á gangupplag hrossa. Til að skeiðgensgreining sé framkvæmanleg þarf að liggja fyrir strok- eða blóðsýni úr viðkomandi grip. Áhugasamir um skeiðgensgreiningar geta sem best sett sig í samband við starfsmenn á hrossaræktarsviði RML en hagkvæmast er að greina sem flest skeiðgenssýni í einu lagi.

Á heimasíðu RML má nálgast frekari upplýsingar um DNA-sýnatökur, regluverk kynbótasýninga o.fl. o.fl.
https://www.rml.is/is/radgjof/hrossaraekt/dna-synatokur
https://www.rml.is/is/kynbotastarf/hrossaraekt/kynbotasyningar/skilyrdi-sem-hross-thurfa-ad-uppfylla
https://www.rml.is/static/files/Hrossaraekt_RML/2020/vegvisir_2020_netutgafa2020.pdf