Á dögunum dæmdi Oddný Steina Valsdóttir tvílembinga af 100% forystukyni, einstaklega greindarleg og glæsileg systkini sem sýndu greinilega forystuhæfileika þegar þau voru rekin um með hópi lamba sem ekki voru af forystukyni. Þessi systkini eru frá bænum Ási 2 í Ásahrepp í eigu Ástríðar Magnúsdóttur og Hannesar Brynjars Sigurgeirssonar, undan sæðingarhrútunum 24-976 Völundi frá Gróustöðum og 21-105 Prinsessu frá Fossi. Samkvæmt þessum lömbum virðist Völundur ætla að sanna sig til kynbóta á íslenska forystufjárstofninum en í hrútaskránni er honum lýst sem úrvals forystugrip, rólegum og skynsömum, þrátt fyrir ungan aldur.
Þegar forystulömb eru metin er litið til sköpulags, skaps og forystuhæfileika. Höfuð á að vera frítt, fremur fínlegt með stór og skýr augu. Svipurinn skarplegur og augnaráð vökult. Kindin á að vera bollétt, háfætt og með sterka yfirlínu og fætur nettir en sterklegir. Kindin á að vera kjörkuð, yfirveguð en jafnframt athugul og næm. Þegar hún er handsömuð á hún að vera stillt og prúð og mjög leiðitöm. Forystuhæfileikinn er metinn þannig að forystukindin er rekin ásamt öðrum kindum sem ekki eru forystukind. Forystukindin fer fyrir hópnum og hinar virða hana og fylgja henni.
Hver og einn forystufjáreigandi getur skráð forystueiginleika hvers grips í Fjárvís og eru bændur hvattir til að gera það. Enginn þekkir gripinn betur en sá sem umgengst hann. Stofninn er lítill þannig það á auðveldlega að vera hægt að safna saman öllum mögulegum upplýsingum um hann sem nýtist áfram við ræktun stofnsins.


/okg